Stólastúlkur með sigur í Síkinu
Lið Tindastóls spilaði fjórða leik sinn í 1. deild kvenna í körfubolta í gær þegar þær tóku á móti liði Hamars/Þórs Þ í fyrsta leik liðanna að lokinni langri kófpásu. Lið Tindastóls náði undirtökunum strax í byrjun þar sem mikill hraði og dugnaður einkenndi leik liðsins. Grunnurinn að sigri Stólastúlkna var lagður í fyrri hálfleik en lokatölurna voru 70–45.
Heimastúlkur komust í 9-2 snemma leiks og síðan jókst munurinn jafnt og þétt fram að hléi. Staðan var 20–8 eftir fyrsta leikhluta og 38–15 í hálfleik. Leikurinn jafnaðist nokkuð í síðari hálfleik en þó án þess að gestirnir næðu nokkurn tímann að saxa neitt á forskot Tindastóls. Sigur því staðreynd og jákvæð byrjun Stólastúlkna eftir pásu.
Eva Wium var stigahæst í liði Tindastóls með 23 stig, Marín Lind setti 15 stig og Karen Lind hrtði 11 stig og tók 9 fráköst. Eva Rún var með þrefalda sjöu, skilaði 7 stigum, 7 fráköstum og 7 stoðsendingum. Í liði gestanna fór mest fyrir erlendum leikmanni sunnanstúlkna, Fallyn Elizabeth Ann Stephens, sem gerði 20 stig og tók 8 fráköst. Margir boltar töpuðust í leiknum og þannig tapaði lið gestanna 31 bolta. Vítanýting heimastúlkna var döpur, 10 víti niður í 28 skotum. Ánægjulegt var að sjá að allir leikmenn á skýrslu fengu að spreyta sig í leiknum.
Gaman að sjá alla leikmenn liðsins vera að uppskera
„Mikill liðssigur í [gær], gaman að sjá hvern leikmanninn á fætur öðrum koma inn á og leggja sitt til liðsins,“ sagði Árni Eggert, þjálfari Tindastóls, vel sáttur þegar Feykir náði í hann eftir leik. „Það breytti engu hver var inn á og það er unun að vera í þannig andrúmslofti. Þau varnaratriði sem við lögðum mesta áherslu á í vikunni gengu nánast öll upp og það gleður alltaf þjálfarann að sjá þegar planið gengur eftir. Orkan og áræðnin var framúrskarandi og gaman að sjá alla leikmenn liðsins vera að uppskera eftir þá miklu vinnu sem liðið er búið að leggja á sig. Við erum ekki alltaf betra liðið en við erum duglegri og áræðnari og vitum að það vegur oft þyngra. Við vitum líka að það á eftir að skila sér í lok tímabils þegar leikirnir telja meira. Liðið er í sífelldri þróun og það var margt sem hefði mátt ganga betur í dag en þá vitum við líka hvaða verkefni bíða okkar og okkur hlakkar alltaf til að fara í vinnuna. Hamar/Þór sýndi fyrir jól að þær eru með betri liðum deildarinnar en við vorum einbeittari í dag og sýndum að við getum verið í þeirri baráttu líka. Það er samt ótrúlegt að lokastaðan hafi verið svona miðað við að við skildum 18 stig eftir á vítalínunni, þannig hluti getum við ekki leyft okkur aftur.“
Athugulir áhorfendur TindastólsTV hafa eflaust tekið eftir að í lið Tindastóls vantaði Dominique Toussaint en hún fór heim eftir leikinn gegn Grindavík í október. „Hún var ekki það sem okkur vantaði að þessu sinni og við óskum henni góðs gengis á nýjum vettvangi,“ sagði Árni að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.