Stólastúlkur með sigur í síðasta leik fyrir jól
Á laugardaginn mættust Tindastóll og Fjölnir B í tíundu og síðustu umferð fyrri umferðar 1. deildar kvenna í körfunni. Fyrir leikinn voru Stólastúlkur í níunda sæti (af ellefu liðum í deildinni) en lið Grafarvogsstúlkurnar voru sæti neðar. Það var því mikilvægt fyrir bæði lið að næla í sigur en eftir spennandi leik, þar sem gestirnir höfðu frumkvæðið framan af, þá reyndust síðustu tvær mínútur leiksins drjúgar heimastúlkum í Síkinu sem sigruðu 85-78 og hafa nú unnið fjóra af tíu leikjum sínum.
Gestirnir voru sprækari í fyrsta leikhluta og náðu snemma tólf stiga forystu, 8-20, og tíu stigum munaði að loknum fyrsta leikhluta, 16-26. Varnarleikur Tindastóls var ekki upp á marga fiska á þessum kafla og stúlkurnar söfnuðu villum. Þær komu hins vegar beittari til leiks í öðrum leikhluta og smám saman höluðu þær gestina inn, náðu góðum kafla eftir að staðan var 24-31, komust yfir en liðin skiptust á um að hafa forystuna síðustu mínútur fyrir hálfleiks. Lið Fjölnis B var einu stigi yfir í hálfleik, staðan 40-41.
Jafnræði var með liðunum framan af þriðja leikhluta en góður kafli Tindastóls tryggði sex stiga forystu fyrir lokaátökin, 65-59. Sex stiga munur getur verið fljótur að hverfa í körfunni en heimastúlkur bættu í í byrjun fjórða leikhluta og komust tíu stigum yfir, 70-60. Gestirnir gáfust þó ekkert upp við mótlætið og áður en varði höfðu þær jafnað leikinn, 74-74, og við tóku æsispennandi mínútur þar sem talsvert var um mistök á báða bóga. Inga Sólveig kom sterk inn á þessum kafla, gerði tvær stórar körfur þegar smá hiksti var í Stólastúlkum og hirti nokkur risafráköst. Staðan var 75-77 þegar þrjár mínútur voru eftir og þá náðu heimastúlkur yfirhöndinni á ný. Lið Fjölnis fékk ágæt færi utan 3ja stiga línunnar en niður vildi boltinn ekki og Stólastúlkur höluðu stigin tvö inn af vítalínunni á síðustu sekúndunum eftir dýrmætan 10-1 kafla.
Stefnt að því að styrkja lið Stólastúlkna eftir brotthvarf Ksenju
Það tók Stólastúlkur smá tíma að ná áttum í leiknum en þær léku án leikstjórnandans, Ksenju Hribljan, sem kvaddi liðið fyrr í desember. Það mæddi því mikið á Evu Rún í stöðu leikstjórnanda en hún spilaði allar 40 mínútur leiksins líkt og Maddie. Þær komust vel frá sínu; Eva var með 18 stig og átta stoðsendingar en Maddie skilaði 34 stigum, 24 fráköstum og níu stoðsendingum. Þá datt Anna Karen inn með flott framlag, setti niður fimm þrista í leiknum og endaði með 20 stig og nokkra ansi mikilvæga þegar máli skipti. Inga Sólveig gerði sín fjögur stig á lokakaflanum þegar allt var í járnum en hún tók einnig tólf fráköst.
Í liði Fjölnis B var Emma Hrönn Hákonardóttir stigahæst með 22 stig en Bergdís Anna skilaði 17 stigum. Það má kannski segja að vítahittni gestanna hafi haldið þeim inni í leiknum en þær settu niður 21 af 23 vítaskotum sínum. Lið Tindastóls nýtti sín skot í opnum leik betur og tók að auki ríflega tuttugu fleiri fráköst en Fjölnisliðið. Lið Tindastóls á næst heimaleik 2. janúar þegar lið Hamars-Þórs kemur í heimsókn. Leitað er að leikmanni til að fylla skarð Ksenju þó ekkert sé í hendi í þeim málum samkvæmt upplýsingum Feykis.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.