Stólastúlkur áberandi í Feyki vikunnar
Í tilefni glæsilegs árangurs kvennaliðs Tindastóls í fótbolta í sumar er Feykir vikunnar undirlagður viðtölum og umfjöllunum um ævintýri litla félagsins á Króknum. Að sjálfsögðu er annað bráðgott efni líka og dugar ekki minna en 16 síður þessa vikuna. Magnús Ásgeir Elíasson, bóndi á Stóru-Ásgeirsá í Húnaþingi setti á sig svuntuna og er matgæðingur vikunnar og býður upp á spennandi lambafille sem fyrsta rétt og svo kjötsúpu fyrir hálft hundrað manns. Í leiðara eru smá hugrenningar um nýja stjórnarskrá og gamla, fréttir á sínum stað og afþreying.
En aðalefni blaðsins er uppganga kvennaboltans í Skagafirði og þar má finna fjölmörg viðtöl við leikmenn, gamlar kempur, þjálfara fyrr og nú, stjórnarmenn og stuðningsfólk. Meðal þeirra eru þjálfararnir Guðni Þór Einarsson og Jón Stefán Jónsson, Rúnar Rúnarsson formaður deildarinnar, Valgerður Erlingsdóttir sem rifjar upp fyrstu ár kvennaboltans á Króknum, Svava Rún Ingimarsdóttir sú leikjahæsta, Vigdís Edda Friðriksdóttir Stólastúlka í toppliði Breiðabliks, Jackie Altschuld sem ætlar að koma aftur á Krókinn, Bryndís Rut fyrirliði og Hrafnhildur Björnsdóttir sem verið hefur lykilmaður úr nágrannabænum Blönduósi og Laufey Harpa varnajaxl.
Þá segir Guðjón Örn Jóhannsson, Gaui, frá því hvernig grunnurinn var lagður að þessum frábæra árangri stúlknanna og Sunna Björk Atladóttir fyrrverandi fyrirliði lýsir sinni hlið.
Fyrsta fótboltastelpan á Króknum, Vanda Sigurgeirsdóttir, er tekin tali en hún hefur afrekar margt á knattspyrnuvellinum sem og í þjálfun og segist hún afskaplega stolt af sínu liði af Króknum.
Inn á milli má svo finna kveðjur frá fjölda fólks alls staðar af jarðarkringlunni og ekki síst hamingjuóskir frá fyrirtækjum og félagasamtökum á svæðinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.