Stólarnir úr leik í Bikarkeppni KSÍ eftir naumt tap gegn Þórsurum
Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum að nú er grasið farið að grænka og því er það fótboltinn sem er tekinn við af körfunni á íþróttasviðinu. Tindastólsmenn eru fyrir löngu farnir að spretta úr spori og nú um helgina léku þeir við Þórsara á Akureyri í Bikarkeppni KSÍ.
Fyrsta umferð fór fram helgina áður og þá sló lið Tindastóls frændur sína í Fjallabyggð út í miklum markaleik sem endaði 6-3. Þar bar það helst til tíðinda að Ragnar Þór Gunnarsson gerði þrennu og Bjarni Smári Gíslason og Óskar Smári Haraldsson gerðu sitt markið hvor og síðan voru mótherjarnir svo almennilegir að skora í eigið mark. KF komst tvívegis yfir í fyrri hálfleik en Stólarnir náðu undirtökunum fyrir hlé og leiddu 4-2 í hálfleik.
Nú á laugardaginn mættust Tindastóll og 1. deildar lið Þórs frá Akureyri á KA-vellinum í leik sem í raun var heimaleikur Tindastóls. Það verður heldur betur ánægjulegt þegar Stólarnir fara að geta spilað vorleiki á Króknum á nýjum gervigrasvelli. Stólarnir urðu fyrir talsverðu mótlæti í fyrri hálfleik því Orri Freyr Hjaltalín kom Þórsurum yfir á 14. mínútu og síðan fór markamaskínan Ragnar Þór af velli meiddur um miðjan hálfleikinn. Stólarnir skoruðu mark sem dæmt var af og loks fékk Bjarni Smári að skoða rauða spjaldið hjá dómara leiksins á 40. mínútu og kom því ekki meira við sögu í leiknum. Þórsarar bættu síðan við marki á 44. mínútu og voru því 0-2 yfir í hálfleik.
Stólarnir náðu að girða sig betur í brók í síðari hálfleik og Hólmar Daði Skúlason minnkaði muninn á 69. mínútu. Ekki náðu Tindastólsmenn að jafna leikinn og Þórsurum því síður að bæta við mörkum og kvöddu Stólarnir því Bikarkeppni KSÍ eftir ágæta frammistöðu.
Keppni í 2. deild Íslandsmótsins hefst síðan um næstu helgi og gera Stólarnir sér þá lítið fyrir og renna alla leið á Hornafjörð til að etja kappi við lið Sindra. Leikurinn hefst kl. 14:00 laugardaginn 6. maí. Allir suðaustur!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.