Stólarnir tryggðu sér sæti í undanúrslitum með glæsibrag | UPPFÆRÐ FRÉTT
Lið Tindastóls gerði sér lítið fyrir í kvöld og tryggði sér sæti í undanúrslitum Subway-deildarinnar með öruggum sigri á bitlitlum Suðurnesjapiltum. Stólarnir höfðu betur í öllum leikhlutum leiksins og unnu átján stiga sigur að lokum en mest náðu strákarnir 24 stiga forystu. Það var aðeins í öðrum leikhluta sem gestirnir komust yfir en Stólarnir enduðu leikhlutann með glæsibrag og voru tíu stigum yfir í hálfleik. Lokatölur í leiknum voru 97-79.
Það var fjölmennt í Síkinu þó ekki hafi hausarnir verið alveg jafn margir og um páskahelgina eins og vænta mátti. Stemningin var hins vegar alveg brill og það skalf allt og nötraði þegar líða tók að leik. Hversu geggjaðslega gaman hlýtur að vera að fá að spila svona leiki í Síkinu!?
Pavel skellti ísfirska risanum, Sigga Þorsteins, í byrjunarliðið til að bregðast við stórukallaleik Keflvíkinga í leik þrjú. Það gafst vel og Siggi skellti í tvær íleggjur snemma leiks en Stólarnir náðu strax undirtökunum, leiddu 13-4 þegar fimm mínútur voru liðnar. Keflvíkingar eru engir aukvisar og þeir jöfnuðu leikinn, 17-17, en heimamenn komu sér aftur í stýrissætið og leiddu 25-19 að loknum fyrsta leikhluta. Gestirnir komu vel stemmdir inn í annan leikhluta og þeir komust yfir, 27-28, og leiddu í tvær og hálfa mínútu. Í stöðunni 30-34 og fjórar mínútur til hálfleiks þá fundu Stólarnir módjóið á ný og skelltu í 19-5 kafla og leiddu því með tíu stigum í hálfleik. Staðan 49-39.
Þristar frá Pétri og Drungilas komu muninum í 16 stig snemma í þriðja leikhluta og þá var að verða nokkuð ljóst að Keflvíkingar þyrftu Krísuvíkurleiðina heim. Það kom hins vegar á daginn að hún var kolófær... Hvað þýðir þetta ófærðartal allt saman? Jú, liði Keflavíkur var ógjörningur að vinna sig inn í leikinn á ný og áhlaup þeirra dugðu skammt. Skaflarinir of stórir og sumardekkin augljóslega komin undir rútuna... Stólarnir leiddu með 16 stigum að loknum þriðja leikhluta, eftir laglega flautukörfu frá Keyshawn, og ekki var langur tími liðinn af lokafjórðungnum þegar munurinn var orðinn 24 stig og köttur úti í mýri.
Flott frammistaða góðrar liðsheildar staðreynd þar sem allir leikmenn Stólanna lögðu sitt af mörkum. Pétur átti stórleik í kvöld en kappinn gerði tólf stig, tók níu fráköst og átti átta stoðsendingar en auk þess stal hann boltanum fjórum sinnum. Stigahæstur var Keyshawn með 22 stig og Arnar var með 19.
Ekki er ljóst hver andstæðingur Tindastóls verður í undanúrslitum þar sem fimmta leikinn þarf til til að ná fram niðurstöðu í rimmu Hauka og Þórs Þorlákshafnar.
- - - - -
Fréttin var uppfærð kl. 16:28 á sunnudegi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.