Stólarnir sóttu annað stig austur
Meistaraflokkur karla hjá Tindastóli lék annan leik sinni í 2. deildinni í knattspyrnu um liðna helgi. Strákarnir hafa kannski ekki fengið auðveldustu mögulega byrjun á mótinu, í það minnsta varðandi ferðalögin, en fyrsti leikurinn var á Hornafirði en að þessu sinni var haldið austur á Reyðarfjörð og spilað við lið Fjarðabyggðar. Niðurstaðan reyndist 1-1 jafntefli.
Enn á ný fóru Stólarnir með þunnskipaðan hóp til leiks, aðeins fjórtán klárar á skýrslu, en það reyndist duga fyrir stigi. Jafnt var og markalaust í hálfleik en það var Kenneth Hogg sem kom Tindastólsmönnum yfir á 63. mínútu. Georgi Karaneychev jafnaði leikinn fyrir Fjarðabyggð á 79. mínútu og þar við sat.
Næstkomandi laugardag verður síðan fyrsti heimaleikur sumarsins en þá koma Njarðvíkingar á Krókinn. Bæði liðin eru með tvö stig eftir tvær umferðir. Ekki er annað að sjá en að völlurinn á Króknum sé í fínu formi, iðagrænn og fagur eins og lög og skagfirskar reglur gera ráð fyrir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.