Stólarnir náðu að hrista Stjörnumenn af sér

Ragnar Ágústsson tekur skot. Stuðningsmenn Stólanna hafa trú á því. MYND: DAVÍÐ MÁR
Ragnar Ágústsson tekur skot. Stuðningsmenn Stólanna hafa trú á því. MYND: DAVÍÐ MÁR

Síðari leikur tvíhöfðans gegn liðum Stjörnunnar í Garðabæ fór fram í Síkinu í gær og hófst klukkan 20. Stólarnir höfðu endurheimt flesta piltana sem stríddu við meiðsli í undanförnum leikjum og var allt annar bragur á liðinu fyrir vikið en Vlad þjálfari benti einmitt á það að leik loknum að þegar það vantaði bæði Pétur og Arnar þá væri það líkast því að taka hjartað úr liðinu. Leikurinn var ágæt skemmtun og vel spilaður en það voru heimamenn sem komust á sigurbraut á ný, reyndust sterkari aðilinn í síðari hálfleik og fögnuðu kærkomnum sigri gegn góðu Stjörnuliði. Lokatölur 98-89.

Keyshawn hóf leik með því að koma heimamönnum yfir og var þá þegar búinn að jafna stigaframlag sitt í síðasta leik fyrir austan en samkvæmt heimildum Feykis lék hann þann leik meiddur. Gestirnir voru fljótir að snúa leiknum sér í hag og um miðjan fyrsta leikhluta var munurinn kominn í ellefu stig, staðan 5-16. Tók Vlad þá leikhlé og rístartaði sínum mönnum. Þristar frá Keyshawn og Pétri fylgdu í kjölfarið og síðan tveir til viðbótar frá Arnari áður en Keyshawn kom Stólunum yfir, 20-19, með fimmta þristi Stólanna í röð. Staðan var 23-21 að loknum fyrsta leikhluta og Stólarnir voru fljótlega komnir með sjö stiga forystu í öðrum leikhluta, 30-23. Það átti eftir að sýna sig í leiknum að körfuboltinn er leikur áhlaupa og Stjörnumenn svöruðu fyrir sig. Þeir jöfnuðu leikinn, 30-30, og mínúturnar á eftir skiptust liðin á um að hafa forystuna. Gestirnir áttu ágætan kafla undir lok fyrri hálfeiks og leiddu í hléi með fjórum stigum, staðan 44-48.

Stólarnir voru fljótir að ná undirtökunum í síðari hálfleik. Fyrstu stigin gerði Arnar af vítalínunni og síðan fylgdi þristur frá Ragnari Ágústs en þetta var fyrsta karfan hans í leiknum. Hann átti frábæran síðari hálfleik og endaði leikinn með 17 stig á töflunni. Stólarnir virtust ærla að stinga af undir lok þriðja leikhluta en þá náðu þeir níu stiga forystu, 70-61, eftir þrist frá Keyshawn. Sem fyrr svöruðu gestirnir og minnkuðu muninn í eitt stig en enn dúkkaði Keyshawn upp og setti síðustu körfu leikhlutans. Staðan 72-69. Heimamenn hófu fjórða leikhluta með körfu en fljótlega var allt jafnt á ný, 74-74, en þá komu sjö stig frá Ragga og tvö frá Key og Stólarnir komnir með níu stiga forystu á ný þegar tæpar fimm mínútur voru til leiksloka. Gestirnir gerðu atlögu að forskoti heimamanna sem náðu þó að halda gestunum frá sér. Síðasti dansinn var síðan að mestu stiginn á vítalínunni þar sem Stólarnir voru öryggið uppmálað og tryggðu sér stigin tvö.

Keyshawn Woods svaraði gagnrýninni sem hann fékk frá sérfræðingum eftir síðasta leik og gerði 36 stig í gærkvöldi og tók fimm fráköst. Skotnýtingin var 67% og kappinn var sjö af sjö af vítalínunni. Arnar endaði með 17 stig en flest komu stigin snemma leiks en liði Tindastóls gekk best með hann inn á vellinum. Raggi gerði sem fyrr segir sömuleiðis 17 stig og heldur áfram að brillera en Vlad lét þess getið í viðtali að leik loknum að þegar hann mætti til leiks í sumar var honum sagt frá frábærum leikmönnum Stólanna en ekki hafði þó verið minnst á Ragga – hann væri því algjör bónus! Taiwo gerði tíu stig og hirti fimm fráköst og Pétur skilaði átta stigum og sjö stoðsendingum í leiknum. Í liði Stjörnunnar var Robert Turner III nánast óstöðvandi og setti niður nokkur ruglskot en hann var nú ekki með sömu súpernýtinguna og Keyshawn. Hann gerði engu að síður 37 stig og fiskaði tíu villur. Julius Jucikas gerði 12 stig og gamli refurinn, Hlynur Bærings, var með tíu stig og átta fráköst.

Nú kemur landsleikjahlé í Subway-deildinni en næsti leikur Tindastóls verður í Grindavík 21. nóvember.

Tölfræði á vef KKÍ >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir