Stólarnir með stjörnuleik gegn Stjörnunni í Ásgarði
Leik Stjörnunnar og Tindastóls var frestað vegna ófærðar á fimmtudaginn en strákarnir héldu ákveðnir af stað suður í gær og þrátt fyrir þjálfaraskipti, splunkunýjan Kana og eitt sprungið dekk þá stigu þeir heldur betur upp í Ásgarði Garðbæinga og hirtu bæði stigin í hörkuleik gegn Stjörnumönnum sem höfðu unnið alla sína leiki fram að þessum. Lokatölur 83-91.
Það hefur sem fyrr segir mikið gengið á frá því í síðasta leik Stólanna og að sjálfsögðu ekki léttvægt að segja þremur góðum félögum upp vinnunni og senda þá heim. En það var flestum orðið ljóst að Tindastólsrútan rann ekki alveg heil til skógar og því rétt að smyrja díselvélina betur og rigga rútuna aðeins upp áður en illa færi. Costa, Samb og Seck voru því kvaddir og Israel Martin, aðstoðarþjálfari og fyrrum þjálfari Tindastóls, settist undir stýri og nýr öflugur meðreiðarsveinn frá USA, Antonio Hester, tók sæti Senegalanna.
Ekki var annað að sjá í leiknum gegn Stjörnunni en þessi ráðstöfun hafi hrisst upp í mannskapnum og strákarnir mættu baráttuglaðir og einbeittir til leiks. Hester gerði þrjár fyrstu körfur Stólanna en Stjörnumenn litu ágætlega út líka og allt byrjunarlið þeirra var komið á blað í stöðunni 10-6. Um miðjan fyrsta leikhluta tóku Stólarnir yfirhöndina og Björgvin kom strákunum yfir, 13-14, með 3ja stiga körfu. Að loknum leikhlutanum voru Stólarnir með níu stiga forystu, 18-27, og Hester þar af með 13 stig. Meira jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta og nú kviknaði á Pétri og Caird í 3ja stiga skotunum. Síðustu körfu hálfleiksins gerði þó Justin nokkur Shouse utan 3ja stiga línunnar og gaf tóninn fyrir síðari hálfleik. Staðan 39-46 í hálfleik.
Tómas Heiðar hóf þriðja leikhluta á því að gera tvær 3ja stiga körfur og Stjörnumenn stigu upp. Fyrr en varði voru þeir komnir sjö stigum yfir, 60-53 eftir 21-7 kafla á tæpum fimm mínútum. Varnarleikur Stjörnunnar kostaði þá margar villur og Austin og Hlynur Bærings voru komnir í villuvandræði þegar þarna var komið sögu. Leikmenn Tindastóls létu góðan kafla heimamanna ekki slá sig út af laginu og komu tvíefldir til baka, Pétur smurði niður þristi og troðsla frá Hester minnkaði muninn í tvö stig og Stólarnir í góðum gír. Pétur bætti við tveimur þristum fyrir lok þriðja leikhluta og lið Tindastóls yfir, 67-73.
Fjórði leikhluti var skemmtilegur og spennandi og Stjörnumenn reyndu að elta skottið á vígreifum Tindastólsmönnum. Munurinn á liðunum hefði þó verið meiri ef ekki hefði verið fyrir vandræðalega vítanýtingu Tindastólsmanna (16/33). Stólarnir vörðust vel hverju áhlaupi Stjörnunnar en um miðjan lokafjórðunginn minnkaði Hlynur muninn í þrjú stig, 78-81. Svabbi og Hester svöruðu og Shouse og Hlynur gerðu næstu körfur heimamanna. Staðan 83-85 og tvær og hálf mínúta eftir. Nú tókust liðin vel á en það voru gestirnir sem reyndust klókari og gerðu þrjár síðustu körfurnar í leiknum og fögnuðu sætum sigri.
Hester kom sterkur til leiks í liði Tindastóls, kraftmikill og sterkur og skilaði 28 stigum og 13 fráköstum og ekki annað að sjá en að hann félli vel inn í leik Tindastóls, þó kannski sé of snemmt að slá hann til riddara. Pétur átti enn einn stórleikinn, var óragur að skjóta og skilaði 20 stigum, ellefu stoðsendingum og stal fimm boltum. Caird laumaði niður 22 stigum og Björgvin gerði átta stig og tók sjö fráköst. Annars stóðu allir leikmenn Tindastóls sig frábærlega og varnarleikur liðsins flottur lungann úr leiknum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.