Stólarnir mæta liði Grindavíkur í úrslitakeppninni
Það voru margir með böggum hildar í dag og í kvöld á meðan beðið var eftir úrslitum í lokaumferð Subway-deildar karla í körfubolta. Lið Tindastóls og Stjörnunnar börðust um að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni og reikna mátti með að bæði lið sigruðu í sínum viðureignum gegn neðstu tveimur liðum deildarinnar. Öllu máli skipti því hvernig leikur Álftaness og Hattar færi því ljóst var að ynni Höttur færu Stólarnir í sumarfrí en ef Álftanes hefði sigur þá yrði lið Tindastóls í sjöunda sæti og fengi tækifæri til að sýna sparihliðarnar í úrslitakeppninni.
Fyrst þurftu Tindastólsmenn þó að leggja lið Hamars úr Hveragerði og þar náðu okkar menn undirtökunum fljótt og örugglega, spiluðu bæði góða vörn og sókn í fyrsta leikhluta og leiddu að honum loknum, 30-13. Það sem eftir lifði leiks var munurinn jafnan um tuttugu stig, Stólarnir sýndu góða takta í sókninni en spöruðu sig svolítið í vörninni. Lokatölur voru 115-93 fyrir Stólana. Allir leikmenn Tindastóls fengu ágætan spilatíma og allir skoruðu nema Orri og Pétur og eðlilegt að menn skori ekki ef þeir skjóta ekki á körfuna.
Stigahæstir í liði Tindastóls voru Geks með 23 stig, Tóti og Drungilas gerðu 19 hvor, Woods 14 og Calloway 12.
Leikur Álftaness og Hattar var svolítið spes, gestirnir virtust vera að hvíla sinn mannskap fyrir úrslitakeppnina. Skorið var lítið og staðan í hálfleik 26-25 fyrir heimaliðið í Forsetahöllinni. Góður kafli Álftnesinga í þriðja leikhluta kom þeim rúmum tíu stigum yfir en í fjórða leikhluta kom lið Hattar muninum mest niður í sjö stig en leikurinn endaði með sigri heimamanna, 63-54, og því gátu Stólarnir fagnað sjöunda sætinu sem færir þeim einvígi gegn Grindvíkingum í úrslitakeppninni.
Það má segja að ólánið hafi elt meistara Tindastóls í vetur og liðið alls ekki sýnt hvers megnugt það er. Nú hefst önnur keppni og víst er að gæði hópsins eru talsverð og nú verðum við að vona að okkar menn snúi bökum saman og sýni sínar bestu hliðar. Heimaleikir Grindvíkinga verða spilaðir í Smáranum í Kópavogi og þar fer fyrsti leikur liðanna fram en vinna þarf þrjá leiki til að komast í undanúrslit. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.