Stólarnir mæta hanskalausir í Njarðvíkina í kvöld
Það er mikilvægur körfuboltaleikur í kvöld í Njarðvík þegar heimamenn fá lið Tindastóls í heimsókn. Það er óhætt að segja að bæði lið hafi valdið vonbrigðum það sem af er móti en þau eru jöfn í 8.-9. sæti deildarinnar með tíu stig. Ljóst er að lið Tindastóls verður án Shawn Glover sem hefur að sögn Ingós formanns yfirgefið herbúðir Tindastóls. „Spilar ekki í kvöld og sennilega aldrei aftur fyrir Tindastól – þó maður eigi aldrei að segja aldrei,“ segir Ingó.
Aðspurður um hvort rétt sé að Glover hafi neitað að spila í leiknum gegn KR síðastliðinn sunnudag segir Ingó: „Já, hann neitaði að spila, umbinn snéri því i hringi og útkoman var að við létum hann yfirgefa klúbbinn og Ísland. [Það er] alltaf leiðinlegt að lenda i svona aðstæðum og samræðum við umba og leikmann.“
Eftir tap gegn KR í síðustu umferð voru Stólarnir í áttunda sæti Dominos-deildarinnar en síðan þá hafa Valsmenn skotist upp fyrir þá eftir sterka sigra á ÍR og KR. Tindastólsmenn eru því komnir bæði í baráttu fyrir lífi sínu í efstu deild og um að næla í sæti í úrslitakeppninni. Það er ekki beinlínis sú sviðsmynd sem menn sáu fyrir sér í byrjun móts.
Vonandi fylgja ferskir straumar og betri varnarleikur Flenard Whitfield og liðið fer að sýna sparihliðarnar. Það er eiginlega alveg bráðnauðsynlegt. Leikurinn í kvöld hefst kl. 20:15 og er í beinni á Stöð2Sport.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.