Stólarnir lutu í gras í Fjallabyggð
Tindastóll lék við lið KS/Leifturs í VISA Bikarnum í gærkvöldi og var leikið á Ólafsfirði. Það voru heimamenn sem fóru með sigur af hólmi eftir ágætan leik þar sem Stólarnir komust vel frá sínu en 2-1 tap staðreynd og nokkuð ljóst að VISA bikarinn er ekki á leiðinni á Krókinn þetta sumarið.
Ragnar Hauksson skoraði að venju gegn Tindastólsmönnum, gerði fyrsta mark leiksins með skalla snemma leiks. Stólarnir svöruðu fyrir sig strax í kjölfarið en þar var Ingvi Hrannar Ómarsson að verki eftir sendingu frá Jóhanni Helgasyni. Sigurmarkið gerðu heimamenn fyrir leikhlé og voru Stólarnir ósáttir, töldu að gróflega hefði verið brotið á varnarmanni áður en boltinn var settur í markið.
Tindastóll réði síðan lögum og lofum í síðari hálfleik en þrátt fyrir fjölda góðra færa tókst þeim ekki að skora og því fór sem fór.
Fjölda sterkra leikmanna vantaði í lið Tindastóls að þessu sinni en þrátt fyrir tap á Ólafsfirði voru menn sáttir með leikinn og stefna nú á að byrja keppni í 3. deildinni af krafti en Grundfirðingar koma á Krókinn á laugardag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.