Stólarnir í gjörgæslu á botni 3. deildar þrátt fyrir stig í Garðinum

Raul Sanjuan Jorda kom Stólunum yfir í dag en það dugði ekki til sigurs. Myndin var tekin fyrr í sumar. MYND: ÓAB
Raul Sanjuan Jorda kom Stólunum yfir í dag en það dugði ekki til sigurs. Myndin var tekin fyrr í sumar. MYND: ÓAB

Tindastóll heimsótti Víði á Nesfisk-völlinn í Garði í dag. Staða Tindastóls er því miður afar erfið í neðsta sæti 3. deildar og þrátt fyrir að eitt stig hafi bæst í stigasafnið í dag þá eru mestar líkur á því að það dugi skammt því lið Einherja á Vopnafirði virðist hafa náð vopnum sínum á ögurstundu og virðist líklegt til að skilja Stólana og ÍH eftir í botnsætum deildarinnar. Lokatölur í Garðinum voru 1-1.

Stólarnir voru án fyrirliðans, Konna, en það var Raul Sanjuan Jorda sem gerði mark Tindastóls á 65. mínútu. Það tók heimamenn aðeins fimm mínútur að jafna metin en markið gerði Jóhann Þór Arnarson. Fleiri urðu mörkin ekki og Víðismenn sigla lygnan sjó í 3. deildinni á meðan lið Tindastóls er sem fyrr í gjörgæslu á botninum.

Næstkomandi laugardag koma hins vegar Vopnfirðingar í heimsókn á Krókinn og þá dugar ekkert annað en sigur Stólunum til að gefa sjálfum sér einhvern smá möguleika á að bjarga sér frá falli í síðustu umferðinni. Lið Tindastóls vann fyrri leik liðanna 3-6 en síðan hafa Vopnfirðingar náð að styrkja lið sitt, nýttu gluggann ágætlega sem verður vart sagt um Stólana.

Tap í leiknum þýðir fall í 4. deild en sigur gefur veika von. Á meðan Stólarnir sækja heim lið KFS í Vestmannaeyjum í lokaumferðinni fær lið Einherja Víðismenn í heimsókn og þeir eru nú ekki líklegir til stórræðanna. Lið ÍH, sem situr á milli Einherja og Tindastóls í töflunni, á eftir erfiða leiki gegn tveimur af toppliðum deildarinnar. 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir