Stólarnir ekki í stuði í Keflavík

Drungalis í baráttunni í Síkinu sl. laugardag. Hann náði sér ekki alveg á strik í gær líkt og félagar hans. Bæði Drungilas og Arnar fóru meiddir af velli áður en yfir lauk en Pavel vonar að þeir verði klárir í slaginn á laugardag. MYND: DAVÍÐ MÁR
Drungalis í baráttunni í Síkinu sl. laugardag. Hann náði sér ekki alveg á strik í gær líkt og félagar hans. Bæði Drungilas og Arnar fóru meiddir af velli áður en yfir lauk en Pavel vonar að þeir verði klárir í slaginn á laugardag. MYND: DAVÍÐ MÁR

Stólarnir mættu til leiks í Keflavík í gær í 2-0 stöðu í einvíginu við Keflavík í átta liða úrslitum Subway-deildarinnar. Þeir áttu því möguleika á að sópa Suðurnesjapiltunum í sumarfrí í Blue-höllinni en svo virðist sem þeir hafi skilið sópinn eftir heima í Síki því það var aldrei í spilunum að Keflvíkingar töpuðu leiknum. Þeir náðu yfirhöndinni undir lok fyrsta leikhluta og gestirnir náðu aldrei áhlaupi sem var líklegt til að snúa leiknum Stólunum í hag. Lokatölur 100-78.

Leikurinn var jafn fyrstu mínúturnar og liðin skiptust á um að skora. Hinn tvítugi Ólafur Ingi átti sennilega stærsta þáttinn í að kveikja neistann hjá heimamönnum en hann nýtti öll skot sín í leiknum og þar með talið fjóra þrista. Hann tróð heimamönnum yfir, 12-10, og kom þeim svo sex stigum yfir með þristi, 20-14, og eftir það litu heimamenn í raun aldrei til baka. Staðan var 26-18 að loknum fyrsta leikhluta og reyndar minnkaði Pétur muninn í fjögur stig, 28-24, snemma í öðrum leikhluta en heimamenn svöruðu með 10-0 kafla og fjórtán stigum munaði í hálfleik. Staðan þá 53-39.

Keflvíkingar náðu 18 stiga forystu í byrjun síðari hálfleiks en Pétur svaraði með þristi. Hann og Davis Geks settu báðir fjóra þrista en aðrir voru ekki heitir utan 3ja stiga línunnar þó liðið hafi í heildina skotið yfir 40 þristum. Eftir 25 mínútna leik voru heimamenn komnir með ríflega 20 stiga forystu og staðan 77-54 þegar leikhlutanum lauk eftir þrist frá Ólafi Inga. Það var því nokkuð ljóst í hvað stefndi og ólíklegt að Stólarnir næðu öðrum eins leikhluta og þeim þriðja í leik tvö sem þeir unnu með 23 stiga mun. Fjórði leikhlutinn var reyndar eini leikhlutinn þar sem Stólarnir höfðu betur en hann vannst reyndar bara með einu stigi, 23-24, þannig að það kom ekki að miklu gagni.

Davis Geks var stigahæstur Tindastólsmanna með 15 stig og Pétur var með 14 stig. Keyshawn var með 13 stig og Taiwo tíu en hann tók flest fráköst Stólanna eða sjö stykki. Erik Ayala var stigahæstur Keflvíkinga með 27 stig og Milka var með 21 og þá áttu Ólafur Ingi, Hörður Axel og David Okeke fínan leik. Keflvíkingar voru betri en Stólarnir á öllum sviðum í gær en mestu munaði að þeir hittu mun betur innan teigs, settu niður 29 skot á meðan Stólarnir settu 13. Þá var 3ja stiga nýting heimamanna töluvert betri en Stólanna.

Í viðtali við mbl.is sagði Pétur Rúnar að Stólarnir hefðu ekki náð að gera það sem þeir ætluðu sér inni á vellinum, það hefði vantað smá kraft í liðið og Stólarnir hefðu bara alls ekki verið nógu góðir. Keflvíkingar hefðu aftur á móti verið góðir og átt sigurinn skilinn.

Fjórði leikur liðanna fer fram á laugardaginn og hefst kl. 18:15. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir