Stólarnir áfram í Borgunarbikarnum
Fyrsti alvöruleikur knattspyrnuvertíðarinnar hjá Tindastóli fór fram í gær en þá léku strákarnir við lið Dalvíkur/Reynis í Borgunarbikar karla. Leikið var á gervigrasvelli KA-manna þar sem rétt eins og Sauðárkróksvöllur þá er völlurinn á Dalvík ekki tilbúinn fyrir upphaf fótboltasumarsins.
Bæði liðin féllu í fyrra úr 2. deild og alllangur tími leið þar til mark kom í leikinn. Leikurinn var framlengdur eftir að hvorugu liðinu hafði tekist að skora í venjulegum leiktíma og það var ekki fyrr en fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik framlengingarinnar sem Ágústi Friðjónssyni, sem var þá nýkominn inn á, tókst að skora fyrsta markið. Það var síðan á lokamínútu framlengingarinnar sem Tindastóll fékk vítaspyrnu og úr henni skoraði Arnar Skúli Atlason.
Þriðjudaginn 10. maí spila Stólarnir síðan í annari umferð en þá mæta þeir 1. deildar liði KA kl. 19:00. Keppni í 3. deild hefst 16. maí en þá spilar lið Tindastóls við Vængi Júpíters á Fjölnisvelli en fyrsti heimaleikur Stólanna er settur á 21. maí en spurning hvort hann fer fram á Króknum því vart er að sjá eitt einasta grænt gras enn sem komið er á Sauðárkróksvelli og ekkert nema kuldi í veðurspánum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.