Stólar á Tenerife – Kafli 2

Stórskotalið Tindastóls fylgist með flugeldasýningu. Mynd: HFM.
Stórskotalið Tindastóls fylgist með flugeldasýningu. Mynd: HFM.

Fyrsti leikur Tindastóls hér á Tenerife var móti Santa Cruz sem Jou Costa spilaði með á sínum yngri árum og þjálfaði svo síðar meir, [leikinn sl. miðvikudag]. Þetta lið var uppbyggt svipað og lið Tindastóls þ.e eldri hetjur sem kunna leikinn uppá 10 í bland við unga og upprennandi leikmenn með ferska fætur. Leikur Tindastóls var kaflaskiptur, vantaði áræðni í vörnina og lítið flæði í sóknarleik liðsins sem varð til þess að það hægðist heldur á leiknum sem var gegn uppleggi þjálfarans.

Gæði Tindastólsliðsins skinu þó nógu oft í gegn til að tryggja öruggan sigur 58 – 81.  Þessi leikur markaði ákveðin tímamót, fyrsti sigur Tindastóls og okkar boltabræðra Svavars Atla Birgissonar í 17 ár utan landssteinanna staðreynd.  Við Svavar Atli erum einu eftirleikandi leikmenn liðs Tindastóls sem stjórnað var af Vali Ingimundarsyni sem heimsótti Danaveldi fyrir 17 árum og gerði þar mikinn usla svo stórsá á stolti höfuðborgarinnar og nærsveitum.

Eftir leik var haldið á mikla bæjarhátíð sem er haldin árlega í La Laguna en þar höfðu safnast saman rétt um 10.000 manns.  Þarna var mikið um dýrðir og upplifðum við einhverja metnaðarfyllstu flugeldasýningu sem undirritaður hefur orðið vitni að, en hún stóð stanslaust yfir í um 1 klst.  Þessi sýning setti punktinn yfir annars frábæran dag.

15. sept. – Dagurinn hefst á morgunmat á hótelinu þar sem menn hlaða í sig fyrir átök dagsins, en Aron sérlegur næringarráðgjafi liðsins gefur öllum lausan tauminn þá máltíðina.

Rúta ferjar liðið á æfingu en það er um 15 mín. akstur í íþróttahúsið.  Það er allt í lagi því útsýnið á leiðinni er fallegt þar sem við keyrum meðfram fjallshlíðinni með brimið fyrir neðan okkur og ólífu og vínekrur fyrir ofan okkur.  Þessi daglegi rúntur gefur liðinu tækifæri til að kynnast betur og hefur til að mynda Björgvin Ríkarðs opinberað sig sem mikinn smekkmann á húmor og algjörlega óþrjótandi brandarabanka.  Chris er svo gott sem kominn með íslenskuna en við liðsfélagarnir leggjum okkur fram við að tala hana við hann svo hann læri hana hraðar, öllum til yndisauka. 
Chris Caird átti ótrúlega gott samtal við þessa ljóshærðu dúkku í barnahorninu.

Æfing dagsins er endurheimt og létt skotæfing, lítið við að bæta taktískt, bara lögð áhersla á að auka ákefðina í leik kvöldsins.

Eftir æfingu skellti liðið sér uppá topp hótelsins þar sem er hin besta aðstaða til að baða sig í laug og sól.  Í liðinu eru miklir keppnismenn og því var skellt í keppni um það hver gæti synt flestar ferðir í kafi (sundlaugin er 8 metrar á lengd). Friðrik Þór „landkrabbi“ hóf keppnina og náði ekki einni ferð, kom uppúr kafi blár og þrútinn eftir átökin...  Björgvin kom  á eftir með 3 ferðir en Helgi Rafn sem er þekktur fyrir sitt keppnisskap tók 4 ferðir og vann örugglega.  Eitthvað var fyrirliðinn þreyttur eftir keppnina því hann sofnaði í sólinni og vaknaði einn á þakinu, bleikur.

Hótelgarðurinn sem er staðsettur á þaki hitelsins. Leikur 2: Tindastóll vann sinn annan sigur hér á Tenerife - Tindastóll 82 - 64 La Matanza. 

 Góður leikur hjá liðinu sem setti tóninn í byrjun með mikilli ákefð í varnarleiknum og hröðum sóknarleik sem hélst út leikinn. Eftir leik var liðinu boðið út að borða af gestgjöfum okkar La Matanza.

Mótið hefst á morgun [í kvöld] og er leikur Tindastóls klukkan 21:00 á staðartíma.

/Helgi Freyr Margeirsson

 Hér fyrir neðan má sjá svaðalega troðslu Björgvins úr leiknum.

 

 

Hér er Björgvin Hafþór Ríkharðsson með alvöru punch line.

Posted by Helgi Margeirsson on 15. september 2016

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir