Stofna hjólreiðaklúbb á Sauðárkróki

Liðsmenn Drangeyjar í hjólatúr fyrir WOW Cyclothon. Mynd: Team Drangey.
Liðsmenn Drangeyjar í hjólatúr fyrir WOW Cyclothon. Mynd: Team Drangey.

Hjólreiðafélagið Drangey heldur stofnfund í Húsi frítímans á Sauðárkróki á morgun, fimmtudaginn 10. maí kl. 20. Á fundinum verður félagið kynnt og einnig farið yfir starfsemi félagsins í sumar, sem verður fjölþætt og höfðar til allra hjólara.

Að sögn þeirra Péturs Inga Björnssonar og Yngva Yngvasonar verður klúbburinn undir verndarvæng siglingaklúbbsins Drangeyjar og fær nafn sitt þaðan. Þeir segja að klúbburinn sé formlega orðinn meðlimur í Hjólreiðasambandi Íslands, HRÍ.

Pétur segir að hann og fleiri hafi hafi hjólað undir merkjum Drangeyjar í WOW Cyclothon á síðasta ári en nú sé hugmyndin að opna á starfsemi fyrir alla. „Þetta verður fyrir alla sem hafa áhuga á að hjóla hvort heldur sem er í keppnum eða ekki. Þetta er ekki bara fyrir þá sem mæta í spandexgalla. Það eru margir sem hjóla og hafa áhuga á að hjóla,“ segir Pétur og Yngvi bætir við: „Og í leiðinni ætlum við að hvetja fólk til að vera með á Landsmótinu. Þar verður fjallahjólabraut og svo hjólaður Blönduhlíðarhringurinn. Okkur langar til að sýna fólki fram á það að þetta er ekki svo stórt mál að hjóla marga kílómetra.“

Þeir segja að einnig sé stefnt á að hittast reglulega, minnst einu sinni í viku. Þeir félagar segja að margir innan klúbbsins búi yfir miklum upplýsingum er varða tæknileg atriði hjólamennskunnar sem allir fái notið.

„Við ætlum að gefa af okkur, vegna reynslu okkar og þekkingu og reyna að virkja fólk. Það er það sem þetta snýst um,“ segir Yngvi.

Pétur tekur undir og segir að í og með sé um lýðheilsumál að ræða. „Ég held að almenn vakning sé hjá fólki að lýðheilsa skiptir máli hvort sem er um hjólreiðar eða aðra hreyfingu. Þetta er bráð skemmtileg og holl hreyfing og margir sem eru að hjóla.“

Þeir Pétur og Yngvi vilja hvetja alla áhugasama til að kíkja á fundinn á morgun og helst að taka þátt í starfsemi klúbbsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir