Stjörnustúlkur sterkari á endasprettinum

Fanney setti öll þrjú skotin sín í leiknum niður. Hér er hún í leik gegn ÍR fyrr í vetur. MYND: DAVÍÐ MÁR
Fanney setti öll þrjú skotin sín í leiknum niður. Hér er hún í leik gegn ÍR fyrr í vetur. MYND: DAVÍÐ MÁR

Kvennalið Tindastóls fór suður í Garðabæinn í gær þar sem þær mættu liði Stjörnunnar fyrir framan 28 áhorfendur í Mathús Garðabæjar höllinni. Leikurinn var lengstum jafn og spennandi þó svo heimastúlkur hafi lengstum haft frumkvæðið. Heimastúlkurnar hófu fjórða leikhluta af krafti og þá áttu gestirnir ekkert svar. Lokatölur 84-63 eftir að þremur stigum hafði munað í hálfleik.

Liðin fóru hægt af stað í leiknum en lið Tindastóls komst í 2-6 með körfum frá Ksenju og Maddie. Næstu níu stigin gerðu heimastúlkur og þær leiddu að loknum fyrsta leikhluta, staðan 16-10. Diljá Lárusdóttir skellti í þrist í upphafi annars leikhluta fyrir lið Stjörnunnar en hún reyndist Stólastúlkum erfið í leiknum, gerði 31 stig og hirti níu fráköst. Gestirnir gáfust þó ekkert upp og Ingibjörg Fjóla minnkaði muninn í þrjú stig með þristi, 29-26, þegar leikhlutinn var rúmlega hálfnaður og Eva Rún jafnaði síðan metin, 29-29, sömuleiðis með þristi. Maddie setti síðan niður tvö víti og kom liði Tindastóls yfir en það voru heimastúlkur sem kláruðu leikhlutann betur og voru yfir, 37-34, að honum loknum.

Lið Stjörnunnar var skrefinu á undan í þriðja leikhluta og var jafnan fjórum til átt stigum yfir og var staðan 57-51 að honum loknum. Þær gerðu síðan sjö fyrstu stigin í fjórða leikhluta og náðu síðan 15 stiga forystu eftir þriggja mínútna leik. Þá var mesti vindurinn úr seglum Stólastúlkna og þær náðu ekkert að laga stöðuna áður en yfir lauk.

Lærum af þessu

Maddie gerði 25 stig fyrir Stólastúlkur og tók 13 fráköst auk þess að eiga fimm stoðsendingar. Ksenja var með 13 stig og fimm stoðsendingar, Anna Karen gerði átta stig, Fanney María sex og nýtti öll skotin sín en aðrir leikmenn Tindastóls náðu sér ekki á strik í stigaskorinu.

Tapaðir boltar reyndust Stólastúlkum erfiðir en liðið tapaði 22 boltum á meðan heimastúlkur töpuðu boltanum tíu sinnum og fengu fyrir vikið fleiri skot.

„Mér fannst við sýna styrk okkar í fyrri hálfleik, þó svo við hefðum gert mikið af mistökum, en vorum samt að gera vel. Þriðji fjórðungurinn var í lagi en frammistaðan í lokafjórðungi var bara ekki nógu góð gegn þessu liði. Við munum læra af þessu og vinna að því að þróa leik okkar og þekkingu,“ sagði Jan Bezica, þjálfari Tindastóls, þegar Feykir spurði hvað honum hefði þótt um leikinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir