Stjórn SSNV skorar á stjórnvöld að bregðast við slæmri stöðu sauðfjárræktar í landshlutanum
Á heimasíðu SSNV er birt ítarleg bókun stjórnar samtakanna um alvarlega stöðu sauðfjárræktar í landshlutanum en nýverið kom út skýrsla um stöðu greinarinnar á Íslandi sem Byggðastofnun vann fyrir innviðaráðuneytið. Í henni er dregin upp afar dökk mynd af stöðu og framtíðarhorfum sauðfjárræktar á Íslandi, segir í færslu SSNV.
„Í skýrslunni kemur fram að hvergi á landinu er meira fé en á Norðurlandi vestra og þar eru jafnframt ein stærstu sauðfjárbúin. Einnig kemur fram að fjárhagsstaða bænda í Húnavatnssýslum er með því versta á landinu og að sama skapi meta bændur þar að lífsskilyrði hafi versnað hvað mest undanfarin ár.
Í skýrslunni segir: „Rekstrarniðurstaða sauðfjárbúa fyrir fjármagnsliði og afskriftir hefur verið neikvæð frá árinu 2018. Það þýðir að meðalbúið stendur ekki undir neinni fjárfestingu, hvað þá heldur vaxtakostnaði eða afborgunum af lánum. Þetta leiðir af sér að væntanlega hafi dregið úr viðhaldi, endurræktun og áburðarkaupum.“ Í héraði þar sem sauðfjárbú eru hvað flest og stærst á landinu er ljóst að efnahagsleg áhrif stöðunnar eru mikil. Andlegt álag á bændur er auk þess áhyggjuefni og í skýrslunni er fjallað um afkomuótta og lamandi áhrif hans á andlega heilsu,“ segir m.a. í bókun samtakanna sem lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðunni.
Skorar stjórn samtakanna á stjórnvöld að taka þá stöðu sem greinin stendur frammi fyrir alvarlega og bregðast við með ákveðnum og markvissum hætti og segir í niðurlagi bókunar að mikilvægt sé að til viðbótar við þær skammtíma aðgerðir sem þegar hafa verið kynntar verði unnið að langtímalausn. Lýsir stjórn SSNV sig tilbúna til samtals um leiðir og mögulegar aðgerðir.
Sjá nánar HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.