Sterk þrjú stig í pott Húnvetninga
Leikmenn Kormáks Hvatar bættu þremur stigum í pottinn þegar þeir mættu Úlfunum á Framvellinum í Reykjavík í gær. Bæði lið höfðu unnið einn leik og tapað öðrum í ansi jöfnum D-riðli 4. deildar og því mikilvægt fyrir bæði lið að sækja þrjú stig og koma sér betur fyrir á stigatöflunni. Húnvetningar skoruðu snemma leiks og þar við sat, lokatölur 0-1.
Það var hinn eldsnöggi og áræðni Akil Rondel Dexter De Freitas sem gerði eina mark leiksins á 10. mínútu. Heimamenn urðu fyrir áfalli snemma í síðari hálfleik þegar fyrirliði þeirra, Arnór Siggeirsson, fékk að líta annað gula spjald sitt í leiknum og varð því að skottast af velli og skilja félaga sína eftir einum færri. Lið Kormáks Hvatar hélt síðan sjó það sem eftir lifði leiks og sætur seiglusigur í höfn.
Að þremur umferðum loknum eru lið Hvíta riddarans og Léttis efst með sjö stig en síðan koma Vængir Júpiters og Kormákur Hvöt með sex stig. Átta lið eru í D-riðlinum. Næsti leikur er nk. laugardag en þá mæta Húnvetningar á gervigrasvöllinn í Fagralundi í Kópavogi þar sem Vatnaliljurnar bíða eftir þeim.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.