Stefán Vagn og Bjarni auðvitað í kolvitlausum flokkum!

Fjórir ferskir á þingi. Frá vinstri: Óli Björn, Stefán Vagn, Bjarni og Vilhjálmur. MYND ÚR SAFNI VILLA
Fjórir ferskir á þingi. Frá vinstri: Óli Björn, Stefán Vagn, Bjarni og Vilhjálmur. MYND ÚR SAFNI VILLA

Margir Skagfirðingar hafa væntanlega rekið augun í mynd sem birtist á samfélagsmiðlum í vikunni af fjórum reffilegum Alþingismönnum sem stilltu sér upp saman til myndatöku. Allir eru þeir Króksarar en Bjarni Jónsson og Stefán Vagn Stefánsson búa báðir á Sauðárkróki en hinir, Óli Björn Kárason og Vilhjálmur Árnason, að sjálfsögðu sprungulausir Króksarar þó þeir búi sunnan heiða.

Villi er sonur Árna Egils og Dísu á Skagfirðingabrautinni en þau bjuggu einnig um tíma á Hofsósi. Villi býr nú í Grindavík og var í haust kjörinn fjórði þingmaður Suðurkjördæmis en hann var annar á lista Sjálfstæðisflokksins. Villi hefur verið þingmaður síðan 2013. Foreldrar Óla Björns voru þau Kári Jóns og Eva Snæbjarnar sem bæði eru látin. Óli Björn hefur setið á þingi síðan 2016 en hann skipaði nú fjórða sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og er tíundi þingmaður kjördæmisins. Stefán Vagn og Bjarna er kannski óþarft að kynna en Stebbi er fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis og skokkar fram á þingvöllinn í búningi Framsóknar en Bjarni er oddviti Vinstri grænna og endaði sem fjórði þingmaður NV í nýafstöðnum kosningum.

Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Óla Björn og byrjaði á því að spyrja hann hvort Króksarar, sem teljast vera fjórir af 63 þingmönnum, séu að yfirtaka Alþingi – að minnsta kosti miðað við höfðatölu. „Við erum kannski ekki að yfirtaka þingið en hægt og bítandi að styrkja stöðuna,“ segir Óli Björn. „Raunar er komin forsenda fyrir því að stofna sérstakan þingflokk enda fleira sem sameinar okkur en sundrar, a.m.k. höfum við tekið höndum saman sem bakhjarlar nýrrar ríkisstjórnar og rætur okkar liggja í skagfirskum jarðvegi. Hvort seta okkar fjögurra á þingi sé söguleg eða ekki gæti verið skemmtilegt rannsóknarefni. Við förum nálægt því að skrifa söguna en Siglfirðingar hafa á stundum verið nokkuð fjölmennir á þingi og Eyjamenn einnig.“

Hvernig líst þér á félagsskapinn? „Mér lýst vel á félaga mína, þótt Stefán Vagn og Bjarni séu auðvitað í kolvitlausum flokkum! En við Vilhjálmur fyrirgefum það enda búa þeir báðir yfir skagfirsku drenglyndi.“

Býður það upp á öðruvísi samskipti milli ykkar fjögurra þar sem þið verðið væntanlega í sama liðinu – í meirihluta? „Það held ég ekki. Ég vona að samstarf og samskipti okkar byggist ekki á þeirri forsendu að við séum saman í ríkisstjórn.“

Eru samskipti ánægjuleg milli andstæðinga á þingi? „Samskipti þingmanna úr ólíkum flokkum markast óhjákvæmilega af því að þeir eru að berjast fyrir framgangi ólíkra hugsjóna, þótt skilin séu á stundum óljós. En þótt oft sé tekist harkalega á, hafa flestir burði til þess að taka höndum saman til að tryggja framgang mála. Ég held að þingið hafi sýnt sínar bestu hliðar þegar unnið var að aðgerðum í efnahagsmálum til að verja fyrirtæki og heimili vegna afleiðinga kórónuveirufaraldursins. Ég er ekki viss um átökin hafi eitthvað breyst frá því að ég kom hingað fyrst. Hitt er svo annað að sú tilhneiging er vaxandi að stjórnmálamenn forðist að ræða hugsjónir og vilji fremur ræða form og tæknileg atriði og sitja þar fastir.“

Er Alþingi skemmtilegur vinnustaður? „Alþingi er ekki vinnustaður í hefðbundnum skilningi. Í fyrirtæki reyna starfsmenn að vinna að sameiginlegum markmiðum. Á þingi eru markmiðin misjöfn og það er tekist á um þau. Átök eru því hluti af daglegu lífi þingmanna og þannig á það að vera. Kjósendur eiga að gera kröfu til þess að þingmenn takist á um hugsjónir og ólíkar leiðir en um leið að þeir hafi styrk til þess að virða ólíkar skoðanir. En þingið er skemmtilegur vinnustaður, þó oft komi tímar þar sem leiðindin taka völdin. En það er hluti af lífi okkar allra, óháð því hvaða starfsvettvang við veljum,“ segir Óli Björn að lokum.

Feykir hefur raunar ekki kannað málið til hlítar en líklega kom upp sú staða á síðasta kjörtímabili að fimm Króksarar voru á þingi samtímis; Óli Björn, Villi og síðan Stebbi og Bjarni sem varamenn en sá fimmti hefði þá verið Gunnar Bragi Sveinsson sem ekki gaf kost á sér að þessu sinni og er ekki lengur á þingi.

Kjörbréf allra 63 þingmannanna staðfest í gærkvöldi

Alþingi var sett síðastliðinn þriðjudag og var þinginu þá kynnt niðurstaða kjörbréfanefndar sem rannsakaði vel kynnt talningarklúður í Norðvesturkjördæmi. Í gærkvöldi urðu þingmenn síðan að gera upp við sig hvaða leið væri illskást í málinu og var kosið milli fjögurra tillagna; að kjósa aftur í öllum kjördæmum, uppkosning í Norðvesturkjördæmi, fyrri talning yrði látin standa eða að samþykkja öll kjörbréf samkvæmt niðurstöðum síðari talningar í Norðvesturkjördæmi. Fór svo að meirihluti þingmanna (42) samþykkti kjörbréf allra 63 þingmanna miðað við úrslit í síðari talningu.

Ekki eru þó öll kurl komin til grafar og afar sennilegt að niðurstaðan verði send Mannréttindadómstóli Evrópu til umsagnar.

Reiknað er með að ný ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna verði kynnt til sögunnar á næstu dögum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir