Starri Heiðmarsson ráðinn forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra

Starri Heiðmarsson, nýr forstöðumaður Náttúrustofunnar.
Starri Heiðmarsson, nýr forstöðumaður Náttúrustofunnar.

Stjórn Náttúrustofu Norðurlands vestra hefur ráðið Starra Heiðmarsson sem forstöðumann Náttúrustofunnar, ráðning Starra er tímabundin til eins árs þar sem fráfarandi forstöðumaður hefur óskað eftir leyfi.

Starri er með doktorspróf í grasafræði frá háskólanum í Uppsölum í Svíþjóð en hefur undanfarna tvo áratugi starfað á Akureyrarsetri Náttúrufræðistofnunar Íslands sem sérfræðingur og um áratugar skeið sem fagsviðsstjóri í grasafræði.

Á heimasíðu NNV segir að í starfi sínu hafi Starri sinnt og borið ábyrgð á ýmsum verkefnum eins og rannsóknum á fléttufungu Íslands, vöktun fléttna í Surtsey, vöktun framvindu gróðurs á jökulskerjum Breiðamerkurjökuls og vöktun tindagróðurs í Öxnadal innan alþjóðlega verkefnisins GLORIA (Global Observation Research Initiative in Alpine Environments). Sömuleiðis hefur hann tekið virkan þátt í vistgerðarkortlagningu Íslands og vaktað og metið tegundir á válista.

Starri hefur einnig tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi fyrir hönd Náttúrufræðistofnunar einkum á vegum CAFF (Conservation of Arctic Flora and Fauna) þar sem Starri hefur undanfarin ár starfað sem formaður þurrlendisstarfshóps CBMP sem tekur til vöktunar líffræðilegrar fjölbreytni á norðurhjara. Samhliða störfum sínum á Náttúrufræðistofnun hefur Starri sinnt kennslu við bæði Háskólann á Akureyri og Landbúnaðarháskóla Íslands að Hvanneyri. Hann hefur birt, bæði einn og í samstarfi við aðra, um þrjátíu greinar í alþjóðlegum tímaritum auk fjölmargra innlendra ritsmíða. Starri þekkir vel til náttúrufars á starfsvæði Náttúrustofunnar sem auk margháttaðrar reynslu hans gera hann vel í stakk búinn að sinna starfi forstöðumanns Náttúrustofunnar að mati stjórnar sem hlakkar til samstarfsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir