SSNV og SSNE taka þátt í Nýsköpunarvikunni
Dagana 26. maí til 2. júní mun nýsköpunarvikan fara fram um allt land og munu Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, SSNV og Samtök sveitarfélaga Norðurlandi eystra, SSNE taka þátt í henni. Á vef nýsköpunarvikunnar er henni gerð góð skil:
„Nýsköpunarvikan er hátíð þar sem fyrirtækjum og frumkvöðlum er boðið að standa fyrir nýsköpunartengdum viðburðum þar sem spennandi og frjóar hugmyndir geta sprottið upp.“
Viðburðir SSNV og SSNE í nýsköpunarvikunni verða rafrænir og því aðgengilegir öllum.
Nýsköpunarhádegi á Norðurlandi
Á vegum SSNV og SSNE verða dagleg hádegisstreymi í nýsköpunarvikunni þar sem fólk af norðurlandi mun flytja erindi um nýsköpun af mismunandi tagi. Fólk getur nálgast hádegisstreymin á facebook viðburðinum Nýsköpunarvikan á Norðurlandi.
Nýsköpunarferðalag um Norðurland
Fimmtudaginn 27. maí kl. 13:00 munu frumkvöðlasetur á norðurlandi kynna sína starfsemi og þá nýsköpun sem er í gangi á Norðurlandi. Nýsköpunarferðalaginu verður streymt rafrænt og hægt er að nálgast streymið á Facebook viðburðinum Nýsköpunarvikan á Norðurlandi. Myndböndin verða síðan áfram aðgengileg á heimasíðu SSNV að útsendingu lokinni.
Hugmyndaþorpið Norðurland
Hugmyndaþorpið Norðurland er hugmyndasamkeppni þar sem reynir á nýsköpunarmátt og lausnamiðað hugafar. Á Heimasíðu SSNV kemur eftirfarandi fram:
"Leitast verður eftir hugmyndum um hvernig hægt sé að auka og hvetja til fullvinnslu afurða. Þátttakendur nota Hugmyndaþorp sem er hannað af Austan mána til að koma með hagnýtar og frumlegar hugmyndir útaf frá viðfangsefninu. Fullvinnsla afurða er sameiginlegt markmið sóknaráætlanna landshlutasamtakanna á Norðurlandi, SSNE og SSNV. Hægt verður að taka þátt í Hugmyndaþorpinu á meðan að á Nýsköpunarvikunni stendur. Verðlaun frá frumkvöðlafyrirtækjum á Norðurlandi verða veitt fyrir bestu hugmyndirnar sem og virkustu þátttakendurna."
Það verður því nóg um að vera í nýsköpunarvikunni á Norðurlandi og hvetur Feykir fólk til að fylgjast með og kynna sér nýsköpun á Norðurlandi.
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.