Sogaðist inn í auga pönk-stormsveipsins / JENS GUÐ
Jens Guð, einn ötulasti tónlistarbloggari landsins svo eitthvað sé nefnt, er af árgangi 1956, búsettur í Reykjavík en fæddur og uppalinn á Hrafnhóli í Hjaltadal. „Faðir minn, Guðmundur Stefánsson, var bóndi, oddviti og forstjóri Sláturhúss Skagafjarðar á Sauðárkróki (kallað neðra hús). Mamma, Fjóla Kr. Ísfeld, hefur viðurnefnið spákona. Ég veit ekki hvers vegna. Kannski af því að hún er töluvert mikið í því að spá í bolla. Stundum spáir hún í veðrið,“ segir Jens. Spurður um hvaða hljóðfæri hann spili á segist hann gutla á gítar og bætir við:. „Um tíma spilaði ég mikið á munnhörpu. Svo týndi ég henni.“
Um helstu afrek sín á tónlistarsviðinu segir hann: „Ég hef aldrei verið virkur í tónlist. Var í skólahljómsveitum. Ein var Trico í Steinsstaðaskóla. Um tíma söng ég léttklassík við píanóundirleik á árshátíðum og eitthvað svoleiðis. Það var ekkert gaman. Ég þurfti að vera í fínum fötum. Ég hef sungið stök lög inn á nokkrar plötur. Eitt þeirra fór á vinsældalista í Grænlandi um aldamótin. Það heitir Þorraþrællinn og var skráð á Gleðisveitina Alsælu. Í kjölfar var ég fenginn í hljómleikaferð til Grænlands tvö ár í röð. Ég fékk dauðapönkshljómsveitina Gyllinæð með mér til að spila undir Alsælu-nafninu. Strákarnir voru á fermingaraldri og rústuðu öllu á Grænlandi, bæði á sviði og utan sviðs. Þetta fékk mikla umfjöllun og fréttir bárust til annarra landa. Það leiddi til þess að mér var boðið í hljómleikaferð til Skotlands. Þar var ég bara einn með kassagítar. Þetta er ágætt á ferilsskrá manns sem hefur að uppistöðu til verið óvirkur í tónlist.“
Hvaða lag varstu að hlusta á? Rússnesk kona bað mig um smá aðstoð vegna Fésbókarsíðu sem hún heldur úti, aðdáendasíðu Eivarar. Í leiðinni hlustaði ég á lagið Sum sólja og böur með Eivöru í klippu úr íslenska Sjónvarpinu.
Uppáhalds tónlistartímabil? Pönkárin 1977-1985. Ég sogaðist inn í auga stormsveipsins; setti upp búð sem seldi einungis pönk-plötur, setti upp fjölda pönkhljómleika, gaf út pönk-blöð, gerði útvarpsþætti um pönk, lét framleiða pönk-barmnælur og sótti vikulega 3 - 5 pönkhljómleika heilu og hálfu misserin.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ég hlusta mest á djass en fylgist samt betur með pönki; sæki í að uppgötva nýjar og gamlar áhugaverðar pönksveitir. Helst frá framandi löndum.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Foreldrarnir voru fyrir leiðinlega músík; gömlu dansana, harmónikku, kóra og þessháttar. Stefán bróðir er mér tveimur árum eldri. Hann var áhugasamur um Bítla og Stóns. Það var vinsælla hjá mér.
Hver var fyrsta platan sem þú keyptir þér? Smáskífan Daydream með Lovin Spoonful. Ég var 11 eða 12 ára. Ekkert uppáhaldslag en það skásta sem fékkst þann daginn í bókabúðinni á Sauðárkróki.
Hvaða græjur varstu þá með? Fyrstu græjurnar voru ferðaplötuspilari og kassettutæki. Næst var það samstæða. Man ekki nafnið. Ég var kominn á þrítugsaldur áður en almennilegar græjur komu í hús. Það voru ekki samræmd merki á þeim.
Hver var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? Fyrsta lagið sem greip mig þannig að ég VARÐ að eignast plötuna var Hey Tonight með Creedence Clearwater Revival. Ég var 14 ára og varð forfallinn aðdáandi hljómsveitarinnar. Keypti allar plötur hljómsveitarinnar.
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Ég hef óþol fyrir poppuðu poppi. Músíkútvarpsstöðvar pirra mig. Nema X-ið.
Uppáhalds Júróvisjónlagið? Mér hefur nánast alveg tekist að sniðganga Júóvisjón alla ævi. Þó man ég eftir ágætu lagi með Dr. Spock og öðru með Botnleðju. Ég á smáskífu með Eivöru þar sem hún syngur Júróvisjónlag, Í nótt, eftir Ingva Þór Kormáksson.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Stundum er ég fenginn til að plötusnúðast á skemmtistöðum. Tiltekin lög virka alltaf til að smala liðinu út á dansgólfið: Walk of Life með Dire Straits, 2-4-6-8 Motorway með Tom Robinson, Hello Mary Lou með Creedence og Down at the Twist and Shout með Mary Chapin Carpenter.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Djass. Til dæmis Kind of Blue með Miles Davis.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég finn lítið fyrir áhuga á hljómleikum með heimsins stærstu nöfnum. Ég sæki meira í að uppgötva nýjar hljómsveitir. Ég fer oft á G!Festival sem er stærsta árlega útirokkhátíðin í Færeyjum. Þar heyrir maður á þremur dögum rjómann í færeyskri tónlist og áhugaverðum hljómsveitum víða að úr heiminum. Líka íslenskum. Í ár var það Agent Fresco. Kiddi kanína (kenndur við Hljómalind) var ferðafélagi ásamt þremur öðrum íslenskum Færeyjavinum.
Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkomin með bílpróf? Á árunum 1973-1974 voru Pink Floyd og Yes oftast í 8 rása bílakassettutækinu. Þetta var prog-tímabil sem pönkið gerði síðar blessunarlega uppreisn gegn.
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Mig hefur aldrei langað til að vera önnur manneskja. Ég hef skrifað bók um eina tónlistarmanneskju, Eivöru. Þá sökkti ég mér ofan í tónlist hennar og tónlistarumhverfið sem hún kom úr. Færeyska tónlistarsenan hefur haft mikil áhrif á mig. Frá fyrstu tíð hef ég verið upptekinn af Bítlunum. Ég geri ekki upp á milli Johns og Pauls sem tónlistarmanna. Ég á fleiri plötur með Paul. Líklega vegna þess að til eru miklu fleiri plötur með honum. Persónuleiki Johns er áhugaverðari, margbrotnari og geggjaðri. Ég á fleiri bækur um John.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Kind of Blue með Miles Davis er toppurinn. Sgt. Peppers... með Bítlunum og fyrsta plata The Clash standa upp úr í ferðalagi mínu um rokksöguna.
Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
Týr - Ormurin langi
Úlfur Úlfur - Brennum allt
Hilmar Örn Hilmarsson, Steindór Andersen & Erpur (Blaz Roca) - Stikluvík
Rage Against the Machine - Killing in the name
Amabadama - Hossa hossa
Ternce Blanchard & Branford Marsalis Quartet - Mo´ Better Blues
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.