Slátrun aflýst?
Tindastólsmenn hófu leik í úrslitakeppni Dominos-deildarinnar í gærkvöldi en þá brunuðu þeir í Sláturhúsið í Keflavík og mættu hinu ógnarsterka liði heimamanna. Eitthvað hökt var á sláturlínunni, gestaskrokkarnir gáfu sig ekki jafn auðveldlega og vanalega og slátrun dróst á langinn – meira að segja sjónvarpsútsendingin hikstaði og þá er nú fokið í flest skjól. Já, Stólarnir komu semsagt baráttuglaðir til leiks og heimamenn mörðu sigur rétt áður en vaktinni lauk. Lokatölur 79-71.
Lið Keflavíkur sigraði deildarkeppnina af miklu öryggi í vetur en Tindatóll marði áttunda sætið eftir taktlaust tímabil. Flestir reiknuðu því með auðveldum sigri heimamanna og ekki bætti úr skák að Stólarnir mættu til leiks örlítið vængbrotnir en Antanas Udras varð að sitja heima í sóttkví.
Jafnt var á flestum tölum í fyrsta leikhluta og leikurinn fjörugur. Pétur og Flenard fóru fyrir Stólunum á þessum kafla en allt jafnt og í járnum, 22-22, eftir að Helgi Rafn setti niður skot í þann mund sem flautan gall. Áfram hélt spennan í öðrum leikhluta og Brodnik kom Stólunum yfir eftir 13 mínútur, 28-29, með liprum þristi. Þá kom slæmi kaflinn því næsta karfa Stólanna kom sjö mínútum síðar eða sekúndu áður en fyrri hálfleik lauk. Sem betur var varnarleikur Tindastóls ágætur á þessum kafla, raunar varnir beggja liða, en Tindastólssóknin var í algjörum baklás og oft eins og menn væru að flýta sér um of – og kannski ekki furða með þessa sláturleyfishafa í vörn heimamanna. Keflvíkingar náðu semsagt ekki að hrista Stólana af sér fyrir hlé enda margt skrítið í gangi. Aðeins þrír heimamanna höfðu gert körfur og í liða Stólanna var ljóst að Tomsick var í óstuði og var með núll stig að loknum fyrri hálfleik, Staðan þá 39-31.
Oft hafa Keflvíkingar valtað yfir andstæðinga sína í þriðja leikhluta en nú var seigt í norðanmönnum sem sáu að heimamenn voru ekki upp á sitt besta og því möguleikar í stöðunni. Fljótlega var munurinn kominn í tvö stig, 45-43, en þá setti Tomsick fyrsta stigið sitt af vítalínunni og þá hafa sennilega einhverjir vonað að það kviknaði aðeins á kappanum. Það gerðist ekki því hann endaði 0/14 í skotum en setti niður fimm víti þegar upp var staðið. Keflvíkingar leiddu út þriðja leikhluta og staðan 57-54 að honum loknum.
Hannes gerði sér lítið fyrir og jafnaði með þristi í upphafi fjórða leikhluta en Milka svaraði í sömu mynt og fékk víti að auki. Hann bætti svo strax við tveimur stigum og er óþolandi skilvirkur leikmaður. Whitfield átti flottan leik í gær og hann minnkaði muninn í tvö stig, 63-61 en nær komust Stólarnir ekki og heimamenn náðu sterkri stöðu þegar fimm mínútur lifðu og gáfu ekki eftir á lokakaflanum.
Tindastólsmenn gátu gengið hnarreistir úr Sláturhúsinu að þessu sinni, sýndu karakter og góða baráttu allt til enda. Semsagt sárir en ekki dauðir úr öllum æðum eins og einhverjir óttuðust. Sennilega velta einhverjir fyrir sér hvernig leikurinn hefði þróast ef Tomsick hefði átt normal leik en hann mátti stríða við Hörð Axel allan leikinn sem spilaði vörn. Og hvað ef Udras hefði ekki verið í sóttkví? En svona er boltinn, ef einum gengur illa stígur annar upp. Whitfield endaði með 23 stig í leiknum og tók 14 fráköst, Brodnik var með 14 stig, Pétur 13 og Axel átta. Í liði Keflavíkur var Milka bestur með 33 stig og átta fráköst, Burks Jr. var með 20 stig og Williams 15. Alls skoruðu fimm leikmenn Keflavíkur í leiknum.
Liðin mætast í öðrum leik einvígisins í Síkinu nú á þriðjudaginn og hefst leikurinn kl. 18:15. Þá segir Baldur Þór að Tindastólsmenn ætli að jafna seríuna. Koma svo!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.