Skólafólk nestaði sig inn í nýtt skólaár
Haustþing Kennarasambands Norðurlands vestra fór fram í Miðgarði í Varmahlíð þann 30. ágúst síðastliðinn. Formaður KSNV er Álfhildur Leifsdóttir kennari við Árskóla á Sauðárkróki og hún féllst á að svara nokkrum spurningum Feykis um þingið og eitt og annað tengt skólamálum.
„Á haustþing KSNV mæta allir starfsmenn grunnskóla á Norðurlandi vestra auk Fjallabyggðar,“ segir Álfhildur þegar hún er spurð um hvað hún geti sagt lesendum Feykis um þingið. „KSNV ákvað á síðasta ári að hafa daginn ekki eingöngu fyrir kennara og stjórnendur, eins og verið hafði, heldur allt starfsfólk grunnskólanna. Við erum öll lykilfólk í lífi þeirra barna sem skólana sækja, við erum öll í sama bátnum að róa í sömu átt og því nauðsynlegt að hittast og stilla saman strengina. Það má því segja að það sé sérstaða KSNV að bjóða öllu skólafólki að sækja sér sömu endurmenntun meðan önnur svæðafélög sem enn halda haustþing eru aðeins með kennara og stjórnendur á slíkum degi. Bæði Magnús Þór, formaður Kennarasambands Íslands, og Mjöll Matthíasdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, eyddu deginum með okkur en alls voru það um 220 manns sem sóttu daginn í Miðgarði að deginum en um 120 manns enduðu kvöldið saman á góðum mat og skemmtun og er óhætt að segja að stemningin hafi verið góð.“
Hverjir koma að því að skipuleggja dagskrá starfsdags og haustþings? „Það er stjórn KSNV í samstarfi við Farskólann á Norðurlandi vestra sem skipuleggur dagskrána og eru stjórnarmeðlimir allt árið með augun opin fyrir góðum fyrirlestrum eða samstarfsfólki sem býr yfir þekkingu sem nauðsyn er að dreifa með vinnustofum á haustþingi.Það fylgir því mikil ábyrgð að smala fjölda fagmanna saman heilan dag meðan skólarnir loka og því gríðarlega mikilvægt að sú dagskrá sem boðið er upp á sé innhaldsrík og eigi erindi við alla sem við skólana starfa.“
Voru athyglisverðir fyrirlestrar haldnir? „Að þessu sinni voru það Soffía Ámundadóttir sem var með fyrirlestur um ofbeldi nemenda og hvaða úrræði og verkfæri við getum haft til að bregðast við ofbeldi í skólaumhverfinu. Því miður er þetta nauðsynleg fræðsla nú á tímum eins og fréttaflutningur ber með sér af vaxandi ofbeldi og vopnaburði ungs fólks. Hún Gréta Bergrún Jóhannsdóttir var einnig með erindi um Druslur og dusilmenni en þar fjallaði hún m.a. um kynjað slúður sem var mjög áhugavert og á sennilega erindi allsstaðar, en ekki síst í minni samfélög eins og okkar á landsbyggðinni.“
Hvað taka kennarar út úr svona hittingi, er dagurinn lærdómsríkur? „Dagur eins og þessi er mjög mikilvægur fyrir skólafólk til að nesta sig inn í nýtt skólaár. Auk fyrirlestranna voru 20 vinnustofur í tveimur lotum þar sem hægt var að velja milli en þar var t.d. hægt að læra hvernig við styðjum við nemendur með námserfiðleika með aðstoð tækni, stærðfræðikennsla með tækni, brjóstsykursgerð, yoga, borðspil í kennslu, Google umhverfið fyrir byrjendur, Canva í skólastarfi og ýmislegt fleira. Einnig fá tungumálakennarar og íþróttakennarar vettvang til að hittast á vinnu-stofum og deila góðum ráðum sín á milli. Gjarnan er það starfsfólk skólanna sem er með jafningjafræðslu í slíkum vinnustofum. Ekki síður er mikilvægt að stækka tengslanetið, að nýir kennarar fái tækifæri til að hitta aðra kennara sem þeir geta leitað til, því oft eru jú aðeins einn smíðakennari og einn heimilisfræðikennari í hverjum skóla og gott fyrir slíka kennara að geta hjálpast að á milli skóla.“
Ábyrgð langt út fyrir umrædda kjarasamninga
Hvað er það helst sem brennur á kennurum þessa dagana? „Sennilega er það eftirvæntingin fyrir nýju skólaári sem brennur á þeim, metnaðurinn til að gera vel og efla nemendur sína í námi og leik. En líka óvissa vegna lausra kjarasamninga og þeirri oft óvægnu umræðu um skólastarf sem hefur verið heldur áberandi undanfarið. Kennarar fagna umræðu um menntamál, þau eru alls ekki einkamál kennara heldur samfélagsins alls og ætti að ræða þau sem víðast og oftast. En umræðan þarf að rýna til gagns og leita lausna til að hún skili árangri. Mér finnst gjarnan að kennarar eigi að bera gríðarlega mikla samfélagsábyrgð í sínu starfi. Ábyrgð sem einmitt er langt út fyrir umrædda kjarasamninga. Umræða má ekki hafa fælingarmátt en staðreyndin er sú að einn af hverjum fimm sem kenna í grunnskólum eru leiðbeinendur. Það er kannski ekki ennþá staðan hér í dreifðari byggð, en það er staðan á höfuðborgarsvæðinu og staða sem að óbreyttu teygir sig með tímanum út á land. Og tölfræðin sýnir að þessi eini af fimm stoppar ekki lengi við, hann er bara að tryggja sér tímabundið starf meðan hann leitar að öðru varanlegra. Þetta þýðir aukið álag á kennara, þeir draga vagninn í þeim óstöðugleika sem óneitanlega verður á vinnustaðnum vegna þessa. Og sá óstöðugleiki bitnar á börnunum okkar. Þess vegna er mikilvægt að gera starfsumhverfi kennara aðlaðandi en tala það ekki niður. En í lok dags þá eru allir að gera sitt allra besta í oft flóknum og krefjandi aðstæðum.“
Hver finnst þér hafa verið mesta byltingin í skólastarfi síðustu fimm til tíu árin? „Að mínu mati er það aðallega tvennt sem hefur lyft kennslunni síðustu ár. Annars vegar er það tæknin sem gerir nám einstaklingsmiðaðra og líka oft áhugaverðara fyrir nemendur en hitt er aukin teymiskennsla. Það er gríðarlega mikilvægt að kenna í teym-um, nýta styrkleika hvers og eins, læra hvort af öðru og deila ábyrgð. Eins er gott fyrir nemendur að hafa val um til hverra þeir leita þegar þörf er á. Ef ég ætti að velja aðeins annað atriðið þá myndi ég velja að halda teymiskennslunni inni frekar en tækninni, svo miklu máli finnst mér hún skipta.
Eru kennarar spenntir fyrir AI (gervigreind) eða líst þeim ekki á blikuna, er kannski verið að nota AI í kennslu nú þegar? „Það var einmitt vinnustofa um gervigreindina síðasta föstudag og er óhætt að segja að það hafi verið mikill áhugi. Með gervigreindinni eru gríðarleg tækifæri til að bæta kennsluna sé rétt á haldið og eins mikil tækifæri fyrir nem-endur að nýta sér gervigreind til að kafa dýpra í námsefnið eða það sem þau hafa áhuga fyrir. En þarna er sannarlega nýr endurmenntunarvettvangur fyrir kennarastéttina sem þarf að opna svo tækifærin séu nýtt rétt og vel.“
Þykir miður að íslenskir nemendur sýni almennt minni samkennd
Verður þú uppveðruð þegar talið berst að Pisa-könnunum, hefurðu skýringu á því hvers vegna við komum ekki betur út úr þeim? „Ég verð nú ekki sérstaklega uppveðruð nei, en þetta eru marktækar kannanir sem við eigum að horfa til og nýta til bætingar. Það sem mér kom á óvart úr síðustu Pisa könnun er sú niðurstaða að íslenskir nemendur sýna almennt minni samkennd en aðrir landar okkar. Það þykir mér miður og sannarlega hægt að vinna með það eins og aukinn námsárangur og ekki síður mikilvægt. Þess vegna trúi ég að innleiðing Árskóla á verkefninu See the good, sem Feykir hefur fjallað um, komi á góðum tíma til að unnið sé markvissar með tilfinningar og styrkleika nemenda, auka þannig tilfinningalæsi og horfa meira til náungans, það er ekki síður þörf á því.“
Sumir foreldrar ergja sig á starfsdögum og spyrja kannski afhverju er ekki hægt að hafa starfsdaga áður en skólastarfið byrjar. Er einhver góð ástæða fyrir því að starfsdagar eru á þessum tíma, svona rétt í byrjun skólaársins? „Það eru reyndar þó nokkrir undirbúningsdagar áður en eiginlegt skólastarf hefst. En samkvæmt kjarasamingum kennara eru fimm undirbúningsdagar á starfstíma skólaársins sem eru vel nýttir í þágu skólastarfsins. Reyndar hefur verið flókið að finna tíma fyrir haustþing KSNV sem hentar öllum vel því það þarf að taka tillit til gangna og rétta í landbúnarðarhéraðinu. En í upphafi skólaárs er gott að hittast og setja tóninn saman að góðu framhaldi með endurmenntunardegi eins og þarna var.“
Síðustu daga hefur verið umræða um stöðu tónlistar-kennara í Skagafirði og starfsemi Tónlistarskóla Skagafjarðar og þá kannski þá aðstöðu sem skólinn býr við. Þú segir sjálf að Tónlistarskóli Skagafjarðar sé olnbogabarn í skólastarfi héraðsins. Hvað er til ráða, hvað vilt þú sjá gerast? „Já, ég hef lengi kallað Tónlistarskólann olnbogabarnið, það er rétt. Kennarar skólans hafa þurft að kenna við ýmsar aðstæður og augljóslega geng-ið á rétt þeirra eins og sjá má á nýlegum dómi sem féll á sveitarfélagið varðandi ógreidda aksturspeninga. Má ætla að það sé af áhuga og umhyggju fyrir efnilegu ungu tónlistarfólki sem tónlistarkennararnir eru þarna enn, en ekki vegna starfsumhverfis. Mannauður eins og er í tónlistarskólanum er ekki gripinn úr götunni á okkar landssvæði en við erum einmitt í héraði sem vill kenna sig við auðugt tónlistarlíf og kóramenningu. Til að viðhalda því verðum við að lyfta og efla það starf sem tónlistarkennarar vinna svo vel og börnin okkar eiga að hafa greiðan aðgang að,“ segir Álfhildur að endingu.
- - - - -
Viðtalið birtist áður í 34. tölublaði Feykis 11. september sl.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.