Skín við sólu

Það má með sanni segja að sólin skíni við okkur Skagfirðingum þessa dagana. Það er ekki bara að vorið og sumarið séu á næsta leiti heldur upplifum við nú eina mestu uppgangs- og uppbyggingartíma seinni ára í fallega firðinum okkar.

Ég, eiginmaður minn og dætur fluttumst aftur heim í Skagafjörðinn árið 2012. Eftir nám og búsetu í Kópavogi, Reykjavík, Seattle og Kaupmannahöfn var stefnan tekin á Krókinn þar sem leiðir okkar hjóna lágu saman í FNV árið 1999. Hérna hefur okkur og börnunum liðið vel og viljum við hvergi annarsstaðar vera.

Skagafjörður hefur öll einkenni blómlegs, lifandi og kraftmikils samfélags - sem því miður er alls ekki sjálfgefið í dreifðri byggð á landsbyggðinni. Hér er næga atvinnu að hafa og finna flestir eitthvað við sitt hæfi. Fyrirtækin okkar, stór og smá, eru kraftmikil og framsækin. Í matvælahéraðinu Skagafirði blómstrar atvinnulífið, hvort heldur sem litið er á framleiðslufyrirtækin eða stoðfyrirtækin. Unga fólkinu okkar fjölgar, leikskólaplássin eru vel nýtt og eftirspurn eftir mun fleiri. Skólarnir okkar á öllum skólastigum eru í fremstu röð og þar er unnið faglegt og metnaðarfullt starf af miklu fagfólki. Sjaldan eða aldrei hefur jafn mikið verið byggt og fjárfest í Skagafirði, í íbúðarhúsnæði, iðnaðarhúsnæði, fjósum og fjárhúsum. Allt eru þetta einkenni þess að það sé gott að búa í Skagafirði; hér eru tækifæri, hér er blómlegt, hér er kraftur og hérna vill fólk vera. Sólin skín svo sannarlega við Skagafirði.

Sveitarfélagið Skagafjörður, sameign okkar allra, hefur ekki látið sitt eftir liggja í þessari miklu uppbyggingu. Mikið hefur verið framkvæmt og má sem dæmi nefna nýlega hitaveituvæðingu í Fljótum og í gamla Lýtingsstaðahreppi. Gervigrasvöllur er nánast tilbúinn á Sauðárkróki. Endurbætur standa yfir á sundlauginni á Sauðárkróki og til stendur að setja upp rennibraut í sundlauginni í Varmahlíð á næstu vikum. Fjárfest hefur verið í skólahúsnæði Árskóla og leikskóla í Varmahlíð og fyrirhugaðar framkvæmdir á Hofsósi einnig. Við ætlum að halda áfram og gera enn betur því miklir möguleikar eru í frekari uppbyggingu skóla og leikskóla í Skagafirði. Sérstaklega er þörf á fjárfestingu og uppbyggingu á leikskólum í firðinum og ætlum við í Framsóknarflokknum að vinna að varanlegri lausn fyrir börn og foreldra á næsta kjörtímabili.

Á sama tíma hefur rekstur sveitarfélagsins sjaldan eða aldrei verið betri. Mikill viðsnúningur hefur orðið á undanförnum árum í rekstri sveitarsjóðs, tekist hefur að greiða niður mikið af skuldum og staðan í rekstrinum er góð.

Margt er þó enn ógert og mörg spennandi verkefni framundan. Fara þarf í aðgerðir til að efla íþrótta- og forvarnarstarf, fegra umhverfið okkar, efla lista- og menningarstarf, efla íbúalýðræði og tryggja áfram öflugt atvinnulíf - svo einungis séu nefnd örfá af okkar áherslumálum. Góður rekstur sveitarsjóðs undanfarin ár undir styrkri stjórn Framsóknarflokksins gerir það mögulegt að fylgja okkar áherslumálum eftir og hrinda þeim í framkvæmd.

Við, frambjóðendur Framsóknarflokksins, hlökkum til að hitta ykkur og ræða um áhersluatriði okkar á básnum okkar á Atvinnulífssýningunni um komandi helgi.

Laufey Kristín Skúladóttir
Höfundur skipar þriðja sæti á lista Framsóknarflokksins í Skagafirði

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir