Skilaboðaskjóðan frumsýnd í gær – Flott sýning sem höfðar til allra
Leikfélag Sauðárkróks frumsýndi Skilaboðaskjóðuna í Menningarhúsinu Miðgarði í gærkvöldi en eins og áður hefur komið fram í fréttum er það í fyrsta skipti sem leikfélagið frumsýnir verk sitt þar. Á sviðinu mátti sjá blöndu af reyndum og óreyndum leikurum sem töfruðu fram skemmtilega frásögn þessa skemmtilega leikrits Þorvaldar Þorsteinssonar.
Sagan snýst um Putta litla sem týnist í ævintýraskóginum og björgun hans úr klóm nátttröllsins sem hefur í hyggju að breyta honum í tröllastrák. Eins og í alvöru ævintýri leynast hættur víða og átök verða á milli hinna góðu og illu en allt hefst að lokum með samstilltu átaki og hyggjuviti hins smáa.
Í innsta vinahring Putta eru persónur sem virðist vera úr smiðju höfundar en aðrar eru að mestu leyti fengnar að láni úr öðrum ævintýrum og eru vel þekktar. Þar má m.a. sjá Mjallhvíti og stjúpuna vondu, Rauðhettu og úlfinn, systkinin Hans og Grétu og týpísku galdranornina sem er ómissandi í öllum góðum ævintýrum.
Í upphafi sögunnar gefur Dreitill skógardvergur tóninn fyrir góða sýningu en með hlutverk hans fer hin 13 ára gamla Ásta Ólöf Jónsdóttir. Hún er að stíga sín fyrstu spor á sviði með LS þó hún þekki vel til vegna tengsla móður sinnar við félagið. Óhætt er að segja að Ásta Ólöf hafi opnað sýninguna með bravúr, lék og söng óaðfinnanlega og geislaði á sviðinu líkt og hún hafi lítið gert annað en staðið á sviði frá fæðingu.
Annar ungur leikari Björgvin Skúli Hauksson vakti aðdáun sýningargesta en hann túlkaði raunir Putta litla. Björgvin Skúli er ellefu ára gamla og líkt og með Ástu Ólöfu frumraun með LS þó ekki væri svo að sjá. Fór hann afskaplega vel með hlutverk Putta, fumlaus og skýr í framburði og leikhæfileikinn greinilega inngróinn í genin. Ég held að óhætt sé að segja að þar hafi senuþjófar sýningarinnar verið á ferðinni.
Fleiri voru að máta sig í sín fyrstu hlutverk með leikfélaginu og túlkuðu þær Snædís Katrín Konráðsdóttir og Herdís María Sigurðardóttir skógarvætti og brugðu sér einnig í hlutverk Hans og Grétu, sem kannski má ekki segja frá, og gerðu vel.
Kanónur leikfélagsins
Aðra leikara þekkja leikhúsgestir af góðu einu. Rannveig Sigrún Stefánsdóttir er í einu burðarhlutverkinu sem mamma Putta og reynir að leiða hópinn saman til að bjarga drengnum úr helli tröllsins. Þau sem hafa séð Rannveigu leika og syngja verða ekki fyrir vonbrigðum í þessari sýningu. Þær frænkur Emelíana Lillý Guðbrandsdóttir og Flóra Rún Haraldsdóttir eru leikkonur af guðs náð. Leikurinn lifandi og skemmtilegur og söngurinn mjög góður og eru þær ekki að syngja auðveldustu lögin í leikritinu. Stjúpan í túlkun Lillýar og nornin hjá Flóru vöktu mikla kátínu í salnum enda vel leiknar.
Haukur Skúlason er með skemmtilegri leikurum félagsins og bregður hann sér í gervi úlfsins, og ekki í fyrsta skipti. Nú er úlfurinn kómískur og man ég ekki eftir því að hann hafi reynt að éta aðrar persónur að þessu sinni. Hann fer vel með hlutverk úlfsins og fékk óskipta athygli áhorfenda með leik sínum í nokkrum senum.
Þorgrímur Svavar Runólfsson er að gera sig heldur betur gildandi í leikarahóp LS. Hann túlkar Stóra dverg og gerir það alveg með prýði. Líflegur á sviði og leikurinn stórgóður. Hann er einn þeirra sem maður vill sjá í hverju leikriti.
Litla dverg leikur Hlífar Óli Dagsson, en hann er alltaf gaman að sjá á sviði. Leikur af mikilli innlifun og hvers kyns svipbrigði leyna sér ekki þegar við á í sérhverri senu. Haraldur Már Rúnarsson túlkar Snigil njósnadverg og fer vel úr hendi. Njósnadvergur er mikilvæg persóna í leikritinu enda býr hann yfir aðalleyndarmálinu, aðgangsorði að hellinum. Hlutverk dverganna virðast ekki mjög stór en þau eru mikilvæg í sögunni og fara þessir drengir vel með þau hlutverk. Sama má segja um aðkomu Kristínar Bjargar Emanúelsdóttur að sögunni en hún leikur bæði höfuðlausan skógarvætt og hina þekktu Mjallhvíti og gerir vel þótt hlutverkið sé smátt í sniðum. Hún hefur verið viðloðandi leikfélagið svo lengi sem elstu leikarar muna þótt hún hafi ekki náð tvítugsaldrinum enn. Hana eigum við vonandi eftir að sjá oftar á sviði.
40. sýning Guðbrands
Guðbrandur í gervi uppfinningadvergsins
í Skilaboðaskjóðunni sem er hans
40. sýning með LS.
Síðastan, og ekki sístan, skal nefna Guðbrand Guðbrandsson. Oft nægir að hann rétt sýni sig á sviðinu til að kitla hláturtaugar sýningargesta. Það er einnig svo í Skilaboðaskjóðunni. Þar leikur hann Skemil uppfinningadverg, sem einmitt fann upp skilaboðaskjóðuna sem á endanum bjargar heilmiklu í þessu skemmtilega ævintýri. Þetta mun vera fertugasta uppsetning Leikfélags Sauðárkróks sem Guðbrandur tekur þátt í og má jafnvel segja að hann sé ómissandi í hverju verkefni leikfélagsins. Það er félaginu dýrmætt að hafa slíkan kostagrip innanborðs.
Leikmynd Kristrúnar Sigurgeirsdóttur er einföld í sniðum en þjónar sínu hlutverki mjög vel í Skilaboðaskjóðunni. Nýttir eru einfaldir snúningar leikmuna, líkt og rúm í húsi sem verður landslag í skógi í einni svipan. Sama má segja um ljósin sem spila stóra rullu í sköpun stemningar skógarins, í höll drottningar eða á heimili Putta og mömmu hans. Búningarnir eru flottir og undirstrika persónueinkenni hvers og eins.
Eins og áður hefur komið fram í fréttum stóð til að sýna samkvæmt venju í Bifröst en vegna tafa á framkvæmdum þar innan húss varð að færa sýninguna í Miðgarð. Það hefur væntanlega sína kosti og galla. Sem áhorfandi fannst mér gaman að sjá þessa leikara á stærra sviði en Bifröst býður upp á en á móti kemur að salurinn er ekki eins áhorfendavænn. Gólfið er ekki hallandi sem þýðir að allir sitja í sömu hæð og erfitt fyrir minnstu áhorfendurna að fylgjast með hvað er að gerast á sviðinu öðru vísi en annað hvort krjúpa eða sitja á hækjum sér í stólunum. Og já stólarnir, maður var orðinn ansi aumur í þjóhnöppunum í lok sýningar, ekki orð um það meir. Það kom í ljós í upphafi seinni hluta leikritsins að eldvarnarkerfi hússins virkar ljómandi vel þar sem það fór í gang og hringdu bjöllurnar í dágóðan tíma áður en fannst út úr því hvernig slökkva átti á græjunum. Hef ég heyrt að reykvélin, sem notuð var í sumum atriðunum, hafi verið sökudólgurinn.
Skilaboðaskjóðan fær ljómandi góða ágætiseinkunn. Pétur Guðjónsson, leikstjóri, býr til fallega sýningu úr þekktu leikhúsverki og höfðar vel til krakkanna sem voru vel með á nótunum, horfðu spenntir á og höfðu gaman af. Ekki sýndist mér annað en fullorðnir í salnum hafi skemmt sér álíka vel svo það er vel hægt að mæla með því að allir drífi sig í leikhús.
Aðeins eru fjórar sýningar á Skilaboðaskjóðunni og allar um komandi helgi. Önnur sýning verður á morgun föstudag klukkan 18 og svo klukkan 14 á laugar- og sunnudag og fara miðapantanir fram í síma 849 9434.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem Gunnhildur Gísladóttir tók á æfingu fyrr í vikunni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.