Skellur hjá þunnskipuðum Tindastólsmönnum

Þrátt fyrir dapurt gengi Tindastóls að undanförnu er Luke Rae enn á skotskónum, hefur skorað 15 mörk í 3. deildinni og er markahæstur ásamt tveimur öðrum köppum. MYND: ÓAB
Þrátt fyrir dapurt gengi Tindastóls að undanförnu er Luke Rae enn á skotskónum, hefur skorað 15 mörk í 3. deildinni og er markahæstur ásamt tveimur öðrum köppum. MYND: ÓAB

Norðanmenn sóttu ekki gullið suður yfir heiðar í gær. Húnvetningar fengu á sig sjö mörk gegn b-liði FH og lið Tindastóls þurfti að hirða boltann fimm sinnum úr netinu gegn b-liði KR í Vesturbænum. Stólarnir náðu forystunni gegn liði KV en heimamenn voru komnir yfir fyrir hlé og kláruðu dæmið síðan í síðari hálfleik. Nú þurfa Tindastólsmenn að fara að klína nokkrum stigum á töfluna ef þeir ætla ekki að sogast niður í fallbaráttu á síðustu metrum keppninnar í 3. deildinni.

Hann var ekki breiður hópurinn sem Stólarnir fóru með suður í gær. Bjarni Smári, sem hefur ekki spilað mikinn fótbolta síðustu árin, var kominn í byrjunarlið Stólanna og á bekknum voru auk Arnórs Guðjónssonar þeir Benni fyrirliði (meiddur), Jón Grétar og Jamie þjálfari. Þá voru Jónas Aron, Fannar Kolbeins, Óskar Smári og Hamish Thomson fjarri góðu gamni og loks var Sewa, sem hafði nýverið fundið fjölina sína, kallaður heim til síns liðs. Þá urðu Stólarnir fyrir áfalli strax í byrjun leiks þegar Jóhann Daði varð að yfirgefa völlinn sökum höfuðmeiðsla.

Luke Rae kom Stólunum yfir á 18. mínútu en sex mínútum síðar höfðu heimamenn jafnað með heppnismarki en þar var á ferðinni Askur Jóhannsson. Einar Már Þórisson kom KV yfir á 31. mínútu og staðan 2-1 í hálfleik. Það dró af liði Tindastóls í síðari hálfleik enda lið Vesturbæinga sterkt og vel spilandi. Ingólfur Sigurðsson gerði þriðja mark KV á 53. mínútu og gamla KR-kempan Grétar Sigurfinnur Sigurðarson bætti fjórða markinu við á 67. mínútu. Victor Borade fékk að líta gula spjaldið tvívegis í uppbótartíma og var því vísað af velli en þetta var síðasti leikur hans með liði Tindastóls. Úr meðfylgjandi vítaspyrnu gerði Einar Már annað mark sitt í leiknum.

Sigur KV var sanngjarn, Vesturbæingarnir voru betra liðið í leiknum og það virtist skorta upp á að gestirnir hefðu trú á verkefninu. Næsti leikur Tindastóls er hér heima á laugardaginn gegn liði Augnabliks og gott væri að ná í stig í þeim leik. Lið Tindastóls er fimm stigum fyrir ofan fallsæti þegar flest liðin eiga eftir að spila þrjá leiki. Liðin fyrir neðan Stólana hafa hins vegar verið að krækja í góða sigra upp á síðkastið þannig að stig í pottinn væru kærkomin. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir