Skatan var borðuð ef hún var til
Guðbrandur Þorkell Guðbrandsson á Sauðárkróki hafði samband við Feyki.is og langaði að prjóna við leistinn eins og hann orðaði það sjálfur, í tilefni allrar þeirrar umræðu um skötuna sem einkennir daginn í dag.
Guðbrandur eða Keli í Kaupfélaginu eins og hann er gjarnan kallaður er alinn upp á „skötusvæði“ vestur á Snæfellsnesi, en það er rétt að það komi fram, segir Keli, að margir siðir og venjur, sem og almennur bragur á fólki er mjög svipaður í gömlu verstöðvunum á utanverðu Snæfellsnesi og er á Vestfjörðum, allavega syðri fjörðunum. Það stafar einfaldlega af því að samgangur var verulegur öldum saman þarna í milli, hyllst var til þess að halda bátum til fiskveiða þar sem styst var á miðin, en að sumarlagi var fiskislóðin út af Vestfjörðum, en á vetrarvertíð var fiskigengd meiri við Snæfellsnes. Það mun hafa stafað af því að meðan loðnan var ekki sérstakur veiðistofn, gekk hún inn í Kolluál, sem er í sunnanverðum Breiðafirði, utan til.
Þorskurinn fylgdi á eftir, enda virðist loðna vera uppáhaldsfæða hans. Nú, ekki meira um það. Ástæður þess að fólk borðaði skötu og annað slíkt fiskmeti af „óæðri“ tegundum mun aðallega hafa legið í tvennu. Í fyrsta lagi eru þarna sýnilegar leifar af þeim kaþólska sið að fasta síðustu fjórar vikurnar fyrir hátíðina. Þá mátti sanntrúað fólk ekki borða kjöt og því varð fiskurinn fyrir valinu.
Að hinu leytinu mun þarna líka hafa ráðið að fólki þótti við hæfi að hafa tilhaldsminni mat fyrir hátíðina, því þá yrði meira varið í tilbreytinguna þegar hátíðin gekk í garð. Svo má nú einnig bæta við, að á þessum tíma árs var heldur lítið um nýmeti til sjávarins, bæði var að sjósókn var erfiðari á þessum árstíma en öðrum vegna veðurs og annarra náttúrulegra orsaka sem og hitt, að fiskgengd var oft – og er reyndar enn – takmörkuð á grunnslóð á þessum árstíma. Var því minni völ á nýmeti, þótt úr sjónum væri, og því var gripið til saltaðs fisks.
Þorskurinn var dýrmætastur alls fisks sem úr sjó var dreginn á fyrri tíð, og því leyfðu menn sér sjaldnast að éta hann sjálfir. Hann var markaðsvaran, gjaldmiðillinn, sem öll afkoman byggðist á. Tómthúsfólk í verstöðvunum borðaði því annan fisk; löngu, keilu, ýsu og – skötu. Nú, og vegna framangreindra ástæðna, var fiskur verkaður með þessum hætti fremur tiltækur en annað þegar leið að jólum. Þegar ég var krakki, var þessa síðustu daga fyrir jól enn til siðs að borða einkum svona saltverkað fiskmeti.
Auk þess sem að framan er talið, skal getið um þunnildi og bútung, sem var pækilsaltaður smáþorskur, þ.e.a.s. undirmálsfiskur, sem var of smár til að vera gjaldgengur sem söluvara í saltfisk og skreið. Skata var náttúrulega þarna með, en það veiddist aldrei mjög mikið af skötu, og því var hún ekkert sérstaklega oft á boðstólum og þar af hefur sennilega komið sá síður að hafa hana sérstaklega þennan tiltekna dag, messu heilags Þorláks biskups á vetur. Ekki minnist ég þó þess að skötuát hafi verið orðið að nokkurskonar trúarlegu ritúali, eins og mér finnst fólk verið að gera úr því hin síðari ár. Hún var borðuð ef hún var til; ef hún var ekki á boðstólum var eitthvað annað borðað, svo sem bútungur.
Kveðja Þorkell G.
Feykir.is þakkar kærlega fyrir þennan skemmtilega fróðleik.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.