Skákþing Norðlendinga á Kaffi Krók um helgina
Skákþing Norðlendinga verður háð á Kaffi Krók um helgina og hefst kl. 20:00 í kvöld. Fjörið byrjar á atskák en tefldar verða fjórar umferðir með 25 mínútna umhugsunartíma. Í 5. umferð, sem hefst kl. 11 á morgun laugardag, verða tímamörkin hins vegar 90 mínútur + 30 sek. á leik.
Áætlað er að 6. umferð hefjist kl. 17:00 á laugardag, en 7. og síðasta umferðin kl. 11 á sunnudag, með sömu tímamörkum. Hraðskákmót verður að móti loknu á sunnudag og hefst hálf þrjú eða síðar.
Á heimasíðu Skákfélags Sauðárkróks segir að 21 keppandi sé skráður til leiks og útlit fyrir skemmtilega og spennandi keppni. Mótið er opið, en aðeins þeir sem eiga lögheimili á Norðurlandi geta barist um titilinn Skákmeistari Norðlendinga 2017.
Núverandi meistari er Sigurður Arnarson á Akureyri, en hann er ekki skráður til leiks að þessu sinni en það eru hins vegar tveir fyrrverandi meistarar, Stefán Bergsson og Jón Kristinn Þorgeirsson. Stigahæstu keppendurnir eru hins vegar, Ingvar Þór Jóhannesson og Róbert Lagermann.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.