Skagfirskur snjólistamaður vekur verðskuldaða athygli
Það hefur viðrað vel til snjóhúsa- og snjókallagerðar um allt land í vetur og margir nýtt sér það til fullnustu. Feyki var bent á brottfluttan Skagfirðing í Kópavogi sem lætur ekkert stoppa sig í þessari göfugu listsköpun, og vakið hefur athygli á samfélagsmiðlum fyrir frumlega skúlptúra.
Stelpurnar hafa gaman af því að hjálpa mömmu sinni
í snjóskúlptúragerðinni en hér eru þær hjá snjókrökkunum.
Ragnheiður Bjarnadóttir er fædd og uppalin í Skagafirði, bjó í Víðilundi á Höfðaströnd, dóttir Ingibjargar Jónsdóttur og Bjarna Ásgríms Jóhannssonar, kennara. Eftir að hún kláraði grunnskólagönguna í Grunnskólanum á Hofsósi fór hún í Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki og svo í píanókennaranám í Reykjavík og hefur starfað sem píanókennari við Tónskóla Eddu Borg síðan.
„Ég náði mér í kall fyrir sunnan, Halldór Hauksson, og við eigum fjórar dætur, Maríu Elísabetu, Lilju Rut, Júlíu Heiðrós og Silju Ásbjörgu, og við búum í Kópavogi,“ segir hún um sunnanlandsdvöl sína. En að snjóskúlptúragerðinni sem margir hafa dásamað á samfélagsmiðlunum. Hvernig hófst þessi snjókalla- eða snjóskúlptúragerð hjá þér?
„Ég var örugglega bara frekar lítil þegar ég fór fyrst að búa til snjókarla með systkinum mínum. Við bjuggum líka til stór og flott snjóhús, stundum með nokkrum herbergjum. Ég man ekki hvernig þetta þróaðist út í „óhefðbundna snjókarla“. En það var frekar snemma. Ég man t.d. eftir risastórri snjókerlingu sem við gerðum í sameiningu, það þurfti að nota stiga af því að hún var svo stór. Ég man ekki betur en að Jóhann bróðir hafi verið „yfirsmiðurinn“ í því verkefni. Ég man líka eftir að hafa einu sinni gert snjóísbjörn og svo eftir að ég fór suður bjó ég á tímabili í Hamrahlíð og gerði nokkuð stóran snjójólasvein sem sat í garðinum. Það var hægt að sitja í fanginu á honum.“
Hvað segja börnin um þessa listasmíð?
„Ég hef aukið þessa snjókarlaframleiðslu eftir að ég eignaðist stelpurnar og við erum saman í þessu. Það byrjar alltaf þannig að við förum saman út, ég og einhver eða einhverjar af stelpunum, en svo er það reyndar oft þannig að þeim er orðið kalt og farnar inn áður en ég hef lokið mér af. En þær hafa mjög gaman að þessu og sú yngsta tilkynnti mér það núna síðast þegar við vorum úti að hún ætlaði að verða svona snjókarlasnillingur þegar hún yrði stór.“
Það hefur viðrað vel til snjólistaverkasköpunar í vetur víðast hvar og ekki síst á höfuðborgarsvæðinu og segir Ragnheiður það fagnaðarefni þegar snjóar.
„Já, ég viðurkenni það alveg að ég fagna snjónum. Ég hef reyndar ekki getað hjólað í vinnuna í u.þ.b. þrjár vikur vegna ófærðar, sem er mjög óvenjulegt hér syðra, og það hefur alls ekki alltaf verið almennilegur „snjókarlasnjór“. Oft hefur verið of kalt og þá er snjórinn ekki nógu blautur. En maður grípur tækifærin þegar þau gefast.“
Herfurðu orðið vör við einhver viðbrögð fólks í nágrenninu hjá þér?
„Já, það hafa þó nokkrir í blokkinni okkar lýst yfir ánægju sinni með þessa fígúrugerð mína. Svo er líka nágrannakona í næsta húsi sem hefur komið til mín og sagst vera í fullri vinnu við að fylgjast með þessum framkvæmdum mínum, taka „snöpp“ og svona og hefur gaman af,“ segir Ragnheiður. En hvaða skúlptúr skyldi hún vera ánægðust með?
„Ég veit það ekki. Ég var frekar ánægð með páskaeggið, fannst það skemmtileg hugmynd, samt ekkert endilega flottast. En gerir maður nokkuð upp á milli verkanna sinna frekar en barnanna sinna?“ spyr listakonan eðlilega.
Það er ekki bara snjókallagerð sem fangar hug Ragnheiðar því hún finnur listsköpun sinni farveg á fleiri sviðum. Þannig segist hún frá því hún var krakki alltaf hafa haft gaman af því að teikna og geri stundum enn og svo hefur hún aðeins verið að fikta við að mála.
„Ég hef reyndar bara mjög gaman af allskonar föndri og hannyrðum. Svo er ég auðvitað mikil áhugamanneskja um tónlist enda vinn ég við tónlistarkennslu og söng lengi í kórum, t.d. í kirkjukórnum á Hofsósi og Mótettukór Hallgrímskirkju.“
En Ragnheiður vill nota tækifærið og hvetja alla, bæði börn og fullorðna, til að leika sér! „Það er líka ótrúlega gaman að búa eitthvað til, t.d. úr snjónum sem er algjörlega ókeypis efniviður og það er hægt að gera svo margt skemmtilegt með hann. Munið bara, ef þið eruð ánægð með það sem þið búið til úr snjó, að taka strax mynd af því. Það er ekkert víst að þið eigið eftir að sjá það aftur næsta dag!“
Feykir þakkar Ragnheiði fyrir skemmtilegt spjall og tekur heilshugar undir þessi hvatningarorð hennar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.