Skagfirskir verktakar ehf. með lægsta tilboð í Þverárfjallsveg
Í dag opnaði Vegagerðin tilboð í byggingu nýs vegar á milli Blönduóss og Skagastrandar eða nánar tiltekið Þverárfjallsvegar (73) í Refasveit og Skagastrandarvegar (74) um Laxá. Tilboðin reyndust þrjú; frá Ístaki hf. í Mosfellsbæ, Borgarverki ehf. í Borgarnesi og Skagfirskum verktökum ehf á Sauðárkróki sem voru með lægsta tilboðið sem var um 100 milljónum hærra en áætlaður verktakakostnaður.
Áætlaður kostnaður var kr. 1.391.123.414 en tilboð Skagfirskra verktaka ehf. var 7,6% yfir þeim kostnaði eða kr. 1.496.400.000. Tilboð Ístaks og Borgarverks voru um og yfir 17% hærri en áætlaður verktakakostnaður Vegagerðarinnar.
Um er að ræða byggingu nýs Þverárfjallsvegar í Refasveit frá frá Hringvegi norðan Blönduóss að núverandi Þverárfjallsvegi, um 8,5 km að lengd og nýs Skagastrandarvegar frá nýjum Þverárfjallsvegi að Skagastrandarvegi norðan Höskuldsstaða, um 3,3 km að lengd. Á Skagastrandarveg skal byggja nýja 106 m langa brú á Laxá í Refasveit. Brúin er í þremur höfum, steinsteypt og eftirspennt. Einnig skal byggja nýjar tengingar og heimreiðar, samtals um 4,5 km að lengd.
Margir hafa beðið spenntir eftir þessum nýja vegi sem leysir af hólmi vegarkafla sem mörgum finnst leiðinlegur og jafnvel hættulegur á milli Blönduóss og Skagastrandar en þessi vegurinn er bæði mjór og hæðóttur. Verkinu skal að fullu lokið fyrir 1. nóvember 2023.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.