Skagfirðingasveit með nýjan bíl á 112 deginum
Næstkomandi föstudag, þann 10. febrúar, stendur til að lögreglan, slökkviliðið og Björgunarsveitin Skagfirðingasveit fari á rúntinn á Sauðárkróki. Áætlað er að kíkja á leikskólann Ársali, bæði við Árkíl og á Víðigrund, og í Árskóla. Rúnturinn hefst klukkan 10.00 um morguninn og geta bæjarbúar átt von á því að heyra sírenuvæl og sjá blá blikkandi ljós um bæinn. Tilefnið er hinn árlegi 112 dagurinn sem haldinn er ár hvert til að minna á neyðarnúmer landsmanna.
„Það er gaman að segja frá því að Björgunarsveitin Skagfirðingasveit verður á nýju tæki en sveitin festi nýlega kaup á Toyota Hilux bíl, árgerð 2015. Bíllinn er vel áberandi enda rauður á lit og verður gaman fyrir félagana að sýna nýja bílinn þennan dag. Hver veit svo nema ný standsetti vörubíllinn okkar fari á rúntinn líka?“ segir Hafdís Einarsdóttir, formaður Skagfirðingasveitar. Bætir hún við að þrátt fyrir tvö ný tæki ætli Björgunarsveitin Skagfirðingasveit ekki að slá slöku við og lítur á 112 daginn þetta árið sem einskonar upphafspunkt fyrir fjármögnun á glænýjum bíl.
„Ætlunin er að ná að safna fyrir GLÆnýjum breyttum jeppa sem yrði afhentur á sextíu ára afmæli sveitarinnar, eftir tvö ár. Sveitin stefnir á að heimsækja fyrirtæki í febrúar og mars og einstaklinga og heimila í samfélaginu í framhaldinu. Við vonum að sjálfsögðu að fyrirtæki og bæjarbúar taki vel á móti okkar fólki og sjái sér fært um að styðja okkur í þessari stóru fjáröflun sem framundan er,“ segir Hafdís vongóð um samhug samferðafólks enda nauðsynlegt að hafa vel búna björgunarsveit í nærsamfélaginu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.