Skagafjarðardeild Rauða krossins gaf milljón í neyðarsöfnun
Skagafjarðardeild Rauða krossins gaf milljón krónur í neyðarsöfnun Rauða krossins vegna jarðskjálftanna í Tyrklandi og Sýrlandi og segir Sólborg Una Pálsdóttir, formaður hennar, í frétt á raudikrossinn.is, að þetta hafi verið mögulegt vegna þess að markaður deildarinnar hafi gengið svo vel.
„Heimamenn eru duglegir að láta okkur hafa ýmislegt til að selja á markaðnum og svo erum við líka með prjónakonur sem framleiða vörur sem við seljum á markaðnum,“ segir hún. „Þetta hefur gengið svona glimrandi vel og það er þess vegna sem við getum sett milljón í þessa söfnun.“
Haft er eftir Sólborgu að það hafi staðið til að gefa peningana í söfnun og þegar hamfarirnar urðu í Tyrklandi og Sýrlandi hafi það legið beint við að styrkja neyðarsöfnunina sem Rauða krossinn á Íslandi setti í gang. „Við þökkum Skagafjarðardeild kærlega fyrir rausnarlegt framlag hennar til mannúðarmála!“ segir í frétt Rauða krossins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.