Sinnir öllu sem til fellur og viðkemur landgræðslu á Norðurlandi vestra
Skógræktin og Landgræðslan óskuðu eftir stuðningi landsmanna við að breiða út birkiskóga landsins í haust og nú er komið að uppskerunni. Biðlað var m.a. til fólks á Norðurlandi vestra að safna fræi og nú hefur héraðssetrinu á Norðurlandi vestra borist heilmikið af birkifræi sem væntanlega á eftir að koma sér vel í íslenskri náttúru. Feykir lagði leið sína til Ingunnar Söndru Arnþórsdóttur, héraðsfulltrúa Landgræðslunnar, en aðsetur hennar er á Sauðárkróki.
Það er í mörg horn að líta hjá Ingunni eins og blaðamaður komst að raun um er Ingunn var spurð út í þau verkefni sem hún sinnir fyrir Landgræðsluna. Alls eru landgræðslusvæðin á Norðurlandi vestra fjögur talsins þar sem stofnunin kostar tæp 40 tonn af áburði, Garðssandur, Fossabrúnir fyrir ofan Svartárdal, Sigríðarstaðasandur og svo lítið verkefni sem 4x4 klúbburinn heldur utan um við Skiptabakka. Þá er landgræðslugirðing við Hafragil í Laxárdal í Skagafirði sem Landgræðslan rekur en þar var lúpínu sáð á sínum tíma og sést greinilega þegar farið er um Þverárfjallsveg. Ingunn segir að þar sé nú dreift birkifræi.
Á heimasíðunni birkiskogur.is er hægt að fræðast um verkefnið sem er liður í því að útbreiða á ný birkiskóglendi sem þakti a.m.k. fjórðung landsins við landnám. Þar segir að á rýru landi sé gjarnan kolefnislosun þar sem gamall jarðvegur sé enn að rotna en ef landið klæðist birkiskógi stöðvast sú losun og binding hefst í staðinn. Þannig sé þá hægt að fullyrða að verkefnið sé því líka gott í baráttunni við loftslagsvána.
Hægt er að óska eftir að fá birkifræ, hvort sem það eru stofnanir, skólar eða félagasamtök en bent á að vanda til verka en fræðast má um þessa hluti og meira til á síðunni.
Ingunn segir það lykilatriði að fræjunum sé dreift á svæði sem eru friðuð fyrir búfjárbeit og ágætt að velja rofið mólendi. Svo sér náttúran um rest. Hún segir það ekki vænlegt til árangurs að bera á þurra mela en Ingunn fór með fræ í landgræðslugirðinguna á Hafragili. „Spurning hvort sveitarfélögin séu með einhver svæði sem gott væri að dreifa á. Ef svo er, þá væri það mjög gaman að halda þessu innan svæðisins,“ segir hún.
Endurheimt votlendis
Ingunn er eini starfsmaður héraðssetursins á Norðurlandi vestra og sinnir hún Húnavatnssýslunum báðum og Skagafirði, sem er vítt og mikið svæði. „Í rauninni sinni ég öllu því sem til fellur og viðkemur landgræðslu á þessu svæði. Svo eru nokkur verkefni sem héraðssetrin sjá um sem eru samstarfsverkefni við bændur, sveitarfélög og fleiri. Þetta héraðssetur er á grónu svæði, ekki á gosbelti eins og er t.d. fyrir austan okkur á Húsavík og víðar, þannig að héraðssetrið hér er að vinna meira að stærri landgræðslusvæðum. Hér vinnum við mikið með bændum sem græða upp í samstarfi við okkur, Bændur græða land, heitir verkefnið. Þetta héraðssetur hér er með flesta þátttakendur í því verkefni, yfir 130 þátttakendur og eru mjög öflugir í uppgræðslunni,“ segir Ingunn.
Eitt verkefna Landgræðslunnar ber heitið Landbótasjóður þar sem Lionsklúbbur Skagafjarðar er þátttakandi og hefur t.d. verið í stóru verkefni á Goðdalafjalli. Fleiri verkefni nefnir Ingunn sem hún sinnir og eitt af þeim er Varnir gegn landbroti. „Þá erum við að reyna að koma í veg fyrir frekara landbrot af völdum fallvatna. Svo erum við í samstarfi við hrossabændur um landnýtingu o.þ.h. og svo er eitt alveg nýtt af nálinni, Endurheimt votlendis. Það er rétt að byrja á þessu svæði en eitt var endurheimt sem Landgræðslan stóð að í fyrra á Norðurlandi vestra, á Ásbúðum á Skaga. Svo eru tvö verkefni að fara í gang núna næstunni, á Kambi í Deildardal og Hólagerði við Steinsstaði í Lýdó.“
Ekki eru öll verkefnin upp talin því gæðastýring í sauðfjárrækt er á borði Landgræðslunnar sem og ýmis önnur sem upp koma og hægt að nefna rannsóknir og eftirlit á svæðinu. „Við förum með eftirlit á sumum afréttum í samstarfi við fjallskilanefndir þegar ákveðið er að opna fyrir upprekstur,“ segir Ingunn og rifjast þá upp ofbeitarumræða sem fór hátt fyrir einhverjum áratugum. „Þegar það kom upp voru gerðar landbótaáætlanir um þessi svæði og þetta sett sem skilyrði og hefur væntanlega eitthvað lagast í kjölfarið á því. En það koma inn, ótengt afréttum, einhver beitarmál sem við þurfum að sinna,“ og á hún þá við þegar einhver hefur tilkynnt mikla og óeðlilega notkun beitarhólfa. Ofbeit á afréttum segir hún ekki vandamál á Norðurlandi vestra í dag enda mikil fækkun orðið bæði á fé og hrossum.
Ingunn segir bændur duglega að notfæra sér þjónustu Landgræðslunnar og þá sérstaklega varðandi uppgræðsluverkefni. „Svo er alltaf hægt að koma til að spjalla og ræða málin,“ segir hún í lokin.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.