Sigurleikur í Kjarnafæðismótinu
Leikið var í Kjarnafæðismótinu í dag, eftir næstum tveggja mánaða pásu, en þá héldu Stólastúlkur norður á Akureyri þar sem leikið var við sameinað lið Fjarðabyggðar, Hattar og Leiknis – eða semsagt Austfirðinga. Lið Tindastóls var 4-0 yfir í hálfleik en úrslitin þegar upp var staðið öruggur 6-1 sigur og ágætis veganesti í leikinn gegn Þór/KA sem fram fer í næstu viku en það er (kannski) síðasti leikurinn í Kjarnafæðismótinu.
Leikið var á KA-vellinum í dag. Mur var spræk eins og stundum áður og var komin með hattrick fyrir hálfleik. Hún gerði fyrstu tvö mörkin og Dom gerði þriðja mark Tindastóls úr vítaspyrnu áður en Mur fullkomnaði þrennuna rétt fyrir hlé. Síðari hálfleikur hófst á sjálfsmarki Austfirðinga eftir fyrirgjöf frá Laufeyju en síðan klóruðu sameinaðir Austfirðingar í bakkann áður en Mur bætti við fjórða marki sínu í leiknum. Á lokamínútunum fékk síðan Amber, markvörður Tindastóls, að líta rauða spjaldið en samkvæmt upplýsingum Feykis eru ekki leikbönn í þessu móti nema leikmaður sýni mikinn háskaleik eða óíþróttamannslega hegðun, sem á ekki við í þessu tilviki.
Hvorki Jackie né Bryndís Rut voru í liði Tindastóls í dag þar sem báðar urðu fyrir hnjaski í leiknum gegn Gróttu um síðustu helgi.
Dularfullar leikskýrslur
Eitthvað var leikskýrsla þessa leiks í ruglinu inni á vef KSÍ og þegar leikjaskrá Kjarnafæðismótsins er skoðuð má að auki sjá að lið Hamranna frá Akureyri hafi sigrað lið Tindastóls 3-0 á dögunum. Guðni Þór, í þjálfaradúett Tindastóls, tjáði Feyki í kvöld að hann hafi rekið augun í þetta á leiðinni til Akureyrar í dag en leikurinn átti að fara fram sl. miðvikudag en leiktíminn hentaði hvorugu liðinu. Hann reiknaði með að fá þetta mál á hreint hjá mótshöldurum á morgun.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.