Sigurður Þorsteinsson semur við körfuknattleiksdeild Tindastóls
Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur samið við Sigurð Þorsteinsson um að leika með liðinu næsta tímabil. Sigurð þarf vart að kynna þeim sem fylgjast með körfubolta en hann hefur mikla reynslu bæði innanlands sem erlendis. Í vetur lék Sigurður með liði Hattar á Egilsstöðum sem, eftir ágæta frammistöðu, féll um deild með 14 stig, fjórum stigum frá Tindastól sem náði inn í úrslitakeppni með 18 stig.
Sigurður er uppalinn Ísfirðingur og hóf ferilinn með KFÍ en söðlaði um árið 2006 er hann flutti sig til Keflavíkur en þar lék hann til ársins 2011 og svo með liði Grindavíkur til 2014. Þá freistaði hann gæfunnar erlendis og lék með Solna Vikings í Svíþjóð og grísku liðunum Machites Doxas Pefkon og Gymnastikos Larissa sitthvert árið þangað til hann kom aftur til Grindavíkur 2017. Tvö næstu tímabil var Sigurður á mála hjá ÍR og nú í vetur með Hetti Egilsstöðum.
„Við erum afskaplega spennt fyrir hans komu á Krókinn og vonumst til að hann styrki íslenska kjarnann í liðinu. Hann hefur mikla reynslu úr úrvalsdeild og ætti að koma sterkur inn,“ segir Ingólfur Jón Geirsson, formaður deildarinnar. Hann vonast til að að þeir leikmenn sem sömdu við félagið í fyrra til tveggja ára verði áfram en mál annarra leikmanna eru í skoðun.
Aðalfundur körfuknattleiksdeildar Tindastóls er framundan og segir Ingólfur komið að tímamótun hjá sér þar sem hann gefur ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn. Það verði ákveðin stjórnarskipti þar sem stefnir í mikla endurnýjun en nafn Dags Þórs Baldvinssonar hefur verið nefnt sem formannsefni og beinagrind komin að nýrri stjórn sem, að sjálfsögðu þarf samþykki aðalfundar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.