Sigurður Líndal ráðinn verkefnastjóri Vestfjarðastofu
Sigurður Líndal Þórisson hefur verið ráðinn verkefnastjóri Vestfjarðastofu á Hólmavík. Sigurður hefur síðastliðin fjögur ár verið framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands og þar áður var hann í stjórnunarstöðu hjá risafyrirtækinu Expedia í London. Hann er með mastersgráðu í stefnumótun og stjórnun listastofnana frá Birkbeck College, University of London og var í tólf ár stundakennari við sviðslistadeildir listaháskóla í London.
Á vef Vestfjarðastofu segir að Sigurður komi til starfa í byrjun júní og muni hann leiða verkefnið Brothættar byggðir í Strandabyggð auk þess að sinna öðrum verkefnum tengdum atvinnu- og byggðaþróun hjá Vestfjarðastofu.
Á Facebooksíðu sinni segir Sigurður að hann kveðji Selasetrið með trega og stolti. „Hér hefur margt áorkast þessi tæpu fimm ár sem ég hef leitt setrið. Eitt sinn sagði Napóleon sem svo að engu skipti hvort hershöfðingjar væru góðir, bara að þeir væru heppnir. Og ég hef sannarlega verið heppinn hér, átt gott samstarfsfólk og getað byggt á vinnu forvera minna,“ segir Sigurður.
Ennfremur segir Sigurður að síðasta verkefni hans fyrir Selasetrið sé að koma rekstrinum í öruggt skjól svo ferðaþjónustuhluti setursins geti skriðið úr híði sínu þegar dregur frá sólu, og vísar þar til afleiðinga COVID-faraldursins. Rannsóknastarfið standi jafn sterkt eftir sem áður.
Sigurður hefur gegnt ýmsum trúnarstörfum og dregur sig nú út út stjórn Markaðsstofu Norðurlands, auk þess sem hann mun ekki gefa kost á sér sem formaður Ferðamálafélags Húnaþings vestra á næsta aðalfundi félagsins og mun þar með ljúka setu í Fagráði ferðaþjónustunnar á Norðurlandi vestra.
„Ég hlakka til samstarfsins við Strandamenn, og hef heyrt að það sé einstaklega fagurt útsýni frá Ströndum til austurs,“ segir Sigurður í lok Facebookfærslu sinnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.