Sigur í fyrsta leik - Tindastóll 6 - Grundarfjörður 0
Það var frábært fótboltaveður á Sauðárkróki í gær þegar Valdimar Pálsson flautaði til leiks í fyrsta heimaleik sumarsins. Tindastólsmenn ætluðu sér sigur í þessu leik enda á heimavelli og ekkert annað í boði.
Byrjunarlið Tindastóls var eftirfarandi: Arnar Magnús, Konni, Donni, Bjarki, Kári, Árni Einar, Árni Arnarson, Jói, Atli, Pálmi og Ingvi.
Tindastólsmenn byrjuðu betur og höfðu frumkvæði allan tímann. Leikmenn Tindastóls áttu þó í einhverjum byrjunarerfiðleikum og fundu sig ekki alveg á vellinum. Sendingar leimanna voru ekki nægilega öruggar en smátt og smátt kom þetta allt og boltinn fór að rúlla. Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 28. mín. þegar Ingvi Hrannar prjónaði sig í gegn og setti boltann örugglega í netið. Bjarki Már kom síðan með annað markið rétt fyrir lok fyrri hálfleiks eða á 45. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.
Guðni Þór skoraði gott mark eftir góðan sprett Arnars Sig. á 48. mínútu. Árni Einar skoraði fallegt mark beint úr aukaspyrnu á 61. mínútu og á 64. mínútu skoraði síðan Arnar Sig. fimmta mark Tindastóls. Donni brenndi af vítaspyrnu en Guðni Þór skoraði sjötta markið á 90. mínútu með bananaskoti utan að kantinum.
Ágæt byrjun hjá Tindastóli og vonandi það sem koma skal. Arnar Magnús stóð sig vel í markinu þó svo ekki hafi reynt mikið á kappann. Þó varði hann glæsilega undir lok leiksins þegar Grundfirðingar komust í eina sókn sína. Vörnin virkaði ljómandi vel og engin teljandi vandræði þar á ferðinni. Bjarki og Donni voru þar eins og herforingjar og stjórnuðu til hægri og vinstri. Konni og Kári stóðu vel fyrir sínu og léku ljómandi vel. Miðjan kom einnig ágætlega út og þar börðust menn eins og ljón, Árni Einar, Jói, Atli og Árni Arnars, sem þó meiddist og þurfti að yfirgefa völlinn. Pálmi átti líka skínandi byrjun en þurfti einnig að yfirgefa völlinn eftir að hafa fengið högg á lærið. Ingvi Hrannar var fremstur og gerði ágæta hluti.
Siggi Donna skipti 5 leikmönnum inná: Arnari Sig, Guðna, Snorra, Óla Hafsteins og Simmi en þeir áttu allir fína innkomu og sinn þátt í þessum góða sigri.
/Tindastóll.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.