Sigur gegn Stjörnunni í lokaleik Lengjubikarsins

Bryndís Rut frá Brautarholti var vel fagnað eftir að hún jafnaði leikinn. MYND: ÓAB
Bryndís Rut frá Brautarholti var vel fagnað eftir að hún jafnaði leikinn. MYND: ÓAB

Stólastúlkur léku síðasta leik sinn í Lengjubikarnum í dag þegar lið Stjörnunnar kom í heimsókn. Gengi liðanna hafði verið misjafnt; lið Tindastóls með eitt stig að loknum fjórum leikjum en Stjarnan með níu stig. Heimastúlkur voru staðráðnar í að bæta stigum á töfluna og leikurinn varð hinn fjörugasti. Lokakaflinn reyndist liði Tindastóls drjúgur og dugði til 3-2 sigurs sem svo sannarlega var sætur.

Snjó kyngdi niður á Króknum í morgun og fram yfir hádegi og karlalið Tindastóls mætti með skóflur á gervigrasvöllinn til að gera tilraun til að hreinsa völlinn. Nokkrir grjótharðir stuðningsmenn mættu með tæki og tól sem gerðu gæfumuninn þannig að hægt var að hefja leik eftir smá töf á upphafsflauti. Aðstæður urðu svo enn betri þegar á leið og snjókoman varð blautari. Logn var á Króknum þannig að aðstæður voru ágætar til boltasparks.

Stjarnan náði 0-2 forystu um miðjan fyrri hálfleik en þær voru heilt yfir betra liðið í fyrri hálfleik. Fyrst skoraði Jasmín Erla Ingadóttir á 21. mínútu og Alma Mathiesen bætti marki við á 29. mínútu. Á 31. mínútu lagaði Hugrún Palla og Guðnýjar stöðuna og stóð 1-2 í hálfleik.

Tindastólsliðið fékk 2-3 sénsa á upphafsmínútum síðari hálfleiks til að jafna leikinn en síðan voru það gestirnir sem ítrekað reyndu að koma boltanum inn fyrir vörn Tindastóls og oft munaði mjóu en Amber var sem fyrr bæði huguð og á tánum og bjargaði nokkrum sinnum meistaralega með mögnuðum úthlaupum. Á 78. mínútu fengu Stólastúlkur síðan hornspyrnu eftir ágæta sókn og eftir smá klafs á markteignum kom Bryndís Rut fyrirliði boltanum í markið og fagnaði innilega. Fimm mínútum síðar átti Murr góða sendingu á Hugrúnu sem þaut með boltann inn í vítateig Stjörnunnar þar sem hún var sneidd niður. Víti dæmt og á punktinn steig María Dögg Jóa og Helgu og hún lét Sandiford í marki Stjörnunnar verja frá sér en fylgdi á eftir og setti boltann af öryggi í markið.

Síðustu mínútur leiksins náðu gestirnir ekki að ógna að ráði, bæði lið fengu þó möguleika og Stjarnan m.a. aukaspyrnu fyrir litlar sakir rétt utan teigs en boltinn hafnaði í fanginu á Amber.

„Stelpurnar sýna ótrúlegan vilja til að vinna,“ segir Donni

Það er bara þannig að á meðan Stólastúlkur ná að spila góða vörn þá er liðið alltaf í séns, kannski ekki alltaf betra liðið en seiglan er engu lík og svo geta þær refsað af miskunnarleysi í sókninni. Feykir hafði samband við Donna þjálfara að leik loknum og hann var hæstánægður með heildarframmistöðu liðsins í dag. „Við hefðum klárlega getað gert aðeins betur i mörkunum sem við fengum á okkur og örlítil heppni þeim i hag þar líka. En frábær mörk hjá okkur og [við] fengum góð færi til að skora fleiri. Það sem ég er hvað ánægðastur með er baráttan, vinnusemin og liðsandinn hjá liðinu. Kemur svo sem ekkert á óvart en þessar stelpur okkar sýna ótrúlegan vilja til að vinna og það er eftirsóknarvert.“

Donni segir að ofan á þetta sé liðið á réttri leið í nýrri taktík þar sem það spilar 4-3-3 sóknarlega en 5-3-2 varnarlega. „Það hefur gengið vel í síðustu tveimur leikjum á móti sterkum úrvalsdeildarliðum. En við erum ekki alveg komin með liðið þar sem við ætlum að vera og nú bíður áframhaldandi mikil vinna til að bæta okkur sem einstaklingar og lið.“

Þrátt fyrir sigurinn endaði liðið í neðsta sæti í sínum riðli á markatölu; spilaði þrjá hörkuleiki gegn KR, Selfossi og Stjörnunni en átti erfitt uppdráttar gegn Blikum og mættu með laskað lið til leiks gegn ÍBV. Allir andstæðingar liðsins í Lengjubikarnum spila í efstu deild í sumar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir