Sigur gegn Borgnesingum í fyrsta æfingaleik haustsins

Lið Tindastóls í leiknum í gær. MYND: KÖRFUKNATTLEIKSDEILD TINDASTÓLS
Lið Tindastóls í leiknum í gær. MYND: KÖRFUKNATTLEIKSDEILD TINDASTÓLS

Körfuknattleikslið Tindastóls lék sinn fyrsta æfingaleik fyrir komandi keppnistímabil á Hvammstanga í gær. Mótherjarnir voru lið Skallagríms en þeir Borgnesingar komust í vor á nýjan leik upp í Dominos-deildina og hafa verið að styrkja sig að undanförnu líkt og önnur lið. Þeir áttu þó ekki roð í lið Tindastóls að þessu sinni en Stólarnir unnu góðan sigur, lokatölur 91-66.

Í lið Tindastóls vantaði einungis Danero Thomas en hann var líkt og Pétur í verkefnum á vegum landsliðsins en hefur æfingar með Stólunum nú um helgina. Aðrir voru komnir á parkettið og Stólarnir náðu yfirhöndinni strax í byrjun leiks. Staðan í hálfleik var 50-31 en nýjir leikmenn liðsins sýndu ágæta takta í sínum fyrsta leik í búningi Tindastóls.

Urald King var stigahæstur Stólanna með 21 stig, Pétur setti 16, Brynjar 13, Dino 12 og aðrir minna. Á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar segir að Israel Martin, þjálfari Tindastóls, hafi verið sáttur í leikslok.  „Okkar megin regla er vinnusemi á vellinum og hún var til staðar í kvöld. Ég er mjög ánægður með liðsandann þrátt fyrir að við höfum aðeins náð fimm æfingum saman og er ég mjög bjartsýnn á þennan hóp,” sagði Martin.

Strákarnir æfa hér heima næstu daga en halda í viku æfingaferð til Alicante þann 11. september.

Heimild: FB síða körfuknattleiksdeildar Tindastóls

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir