Siggi Aadnegard með þrennu fyrir toppliðið
Húnvetningar hafa verið á flugi í 4. deildinni og eftir að hafa tapað fyrsta leik sínum hafa þeir unnið alla leiki síðan. Liðið sem lagði Kormák Hvöt í gras í byrjun tímabils var lið Léttis úr Breiðholti og þeir mættu einmitt á Blönduósvöll í gær í fyrsta leik síðari umferðar D-riðilsins. Húnvetningar voru ekki á þeim buxunum að fella flugið niður því þeir náðu forystunni snemma leiks og sigruðu örugglega 4-1.
Það var hinn eldsnöggi og lipri Akil De Freitas sem kom liði Kormáks Hvatar yfir eftir átta mínútna leik. Sigurður Bjarni Aadnegard bætti við marki á 41. mínútu og staðan 2-0 í hálfleik, Hann bætti við öðru marki á 78. mínútu og fullkomnaði síðan þrennuna á fimmtu mínútu uppbótartíma en í millitíðinni hafði Ari Viðarsson minnkað muninn með marki úr víti.
Kormákur Hvöt er nú á toppi riðilsins með 21 stig eftir átta leiki en Vængir Júpiters geta jafnað við Húnvetningana ef þeir vinna leik sinn gegn Úlfunum. Toppliðin mætast síðan í næstu umferð en leikið verður á Fjölnisvelli í Grafarvogi þann 10. júlí kl. 14:00. Þá er um að gera fyrir stuðningsmenn Kormáks Hvatar að fjölmenna á völlinn og styðja sína menn. Áfram Kormákur Hvöt!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.