Síðustu forvöð að skrá sig á Landsmót á lægra verðinu
Landsmót UMFÍ fer fram á Sauðárkróki 12. - 15. júlí og óhætt að segja að um sannkallaða íþróttaveisla sé að ræða. Hægt að velja fleiri en 30 íþróttagreinar auk skemmtunar og fróðleiks þannig að allir ættu að geta fundið sér eittvað skemmtilegt að gera. Þátttökugjald er 4.900kr. til 16. júní en þá hækkar það í 6.900kr. Feykir hafði samband við Ómar Braga Stefánsson framkvæmdastjóra mótsins og forvitnaðist örlítið um mótið.
Hvað geturðu sagt mér um mótið í stuttu máli?
Það er nú erfitt í stuttu máli því mótið er svo gríðarlega spennandi og verkefnin mörg sem í boði eru. Vissulega er þetta mót fyrst og fremst íþróttamót, en boðið er upp á tugi keppnisgreina auk metnaðarfullra skemmti- og fræðsluviðburða. Mótið er tilvalið fyrir einstaklinga, vini, vinkonur og vinahópa, vinnustaði, hlaupahópa, hjólahópa og alla íþróttahópa, stóra sem smáa. Mótið er fyrir þá sem eru að taka sín fyrstu skref í góðri hreyfingu og einnig þá sem stunda íþróttir reglulega. Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Hver er helsta breytingin á Landsmóti frá því sem áður var?
Þetta mót verður með nýju fyrirkomulagi, við erum í raun að slá saman „stóra“ Landsmótinu og Landsmóti 50+. Það verður því þannig að allir 18 ára og eldri geta keppt á mótinu. Hver og einn býr til sína eigin dagskrá, á sínum forsendum. Við erum búin að opna mótið upp á gátt og það má segja að verið sé að höfða meira til almenningsíþrótta en áður.
Hvernig virka litamerkingar mótsins; gulur, rauður, grænn og blár?
Allir viðburðir mótsins eru merktir með þessum litum. Sumir viðburðir eru gulir, aðrir rauðir og svo koll af kolli. Gulir viðburðir eru keppnisgreinar, rauða viðburði köllum við „Láttu vaða“ en þar getur fólk prófað og jafnvel fengið kennslu og kynningu í viðkomandi grein. Viðburðir sem merktir eru með grænum lit eru opnir öllum og síðan eru það viðburðir sem merktir eru með bláum lit.
Þeir sem kaupa þátttökuarmband geta tekið þátt í öllum keppnisgreinum mótsins auk rauðu og grænu viðburðanna. Þátttökuarmbandið sem kostar aðeins kr. 4.900.- veitir afslætti og fyrirgreiðslu á fjölda viðburða sem merktir eru með bláum lit.
Nú gætu einhverjir hugsað sem svo að svona mót sé bara fyrir fólk sem æfir íþróttir reglulega. Hvað viltu segja um það?
Eins og ég kom að hér á undan þá er búið að opna mótið. Hér áður fyrr var mótið stigakeppni á milli héraðssambanda og íþróttabandalaga um allt land. Nú verður engin stigakeppni og fólk skráir sig og tekur þátt á sínum forsendum. Allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi hvort sem það er fólk sem æfir reglulega eða ekki. Í mínum huga snýst þetta um að taka þátt, finna sinn takt og njóta þess að vera til.
Hvernig gengur að manna sjálfboðaliðastöður?
Við þurfum töluverðan fjölda sjálfboðaliða til að framkvæma mótið og höfum verið að auglýsa eftir þeim. Við greiðum sjálfboðaliðunum ekki laun sem renna í vasa þeirra, en þegar við gerum mótið upp peningalega sjáum við hvað stendur eftir. Við finnum út hvert „tímakaupið“ var og sjálfboðaliðarnir ákveða sjálfir hvert þeirra framlag rennur innan íþróttahreyfingarinnar.
Ef einverjir vilja gerast sjálfboðaliðar, hvert snúa þeir sér?
Þeir senda okkur póst á netfangið margret@umfi.is og gefa upp nafn sitt, kennitölu og síma. Einnig þarf að koma fram hvenær viðkomandi getur unnið, hvaða daga og hvaða tíma dags. Einnig væri gott að vita hvort einhverjar sérstakar óskir eru um verkefni sem viðkomandi vildi helst starfa við.
Eittvað sem þú vilt koma á framfæri?
Skráning á mótið stendur nú yfir. Ég vil hvetja alla Skagfirðinga til að skrá sig á mótið og taka þátt í gleðinni. Það er mikilvægt þegar svona verkefni er hér heima að við sýnum gott fordæmi, skráum okkur og tökum þátt. Skráning fer fram á www.landsmotid.is en einnig er hægt að koma við á þjónustumiðstöðinni okkar að Víðigrund 5 á Sauðárkróki og fá aðstoð. Við erum líka alltaf til í að spjalla við fólk og svara spurningum ef einhverjar eru.
Áður birst í 23 tbl. Feykis 2018.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.