Sérstakar þakkir fær hún mamma mín sem er enn að aðstoða mig og segja mér til
Ólöf Herborg Hartmannsdóttir, alltaf kölluð Lóa, býr á Sauðárkróki. Hún er reyndar fædd á Flateyri en er alin upp á Króknum og hefur búið þar meira og minna allt sitt líf. Í fjölskyldunni er mikil handavinnuhefð og eru mamma hennar og systur allar liðtækar hannyrðakonur.
Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir? Handavinna hefur alltaf verið hluti af lífinu. Mamma tók að sér að sauma fyrir aðra á árum áður auk þess að prjóna og sauma föt á fjölskylduna. Held reyndar að það sé fátt sem hún kann ekki þegar að handavinnu kemur. Sama gildir um báðar ömmur mínar sem voru miklar hannyrðakonur og er dúkurinn sem amma Lóa sendi mér þegar ég byrjaði að búa gott dæmi um það. Dúkinn góða saumaði hún á Ungmenna-skólanum á Núpi í Dýrafirði 15-16 ára gömul og væri gaman að sjá unglinga í dag hafa þolinmæði og getu til að leika þetta eftir.
Þegar ég hugsa til baka finnst mér eins og ég hafi alltaf haft eitthvað að dunda mér við. Man eftir sjálfri mér með garn og heklunál að búa til föt á Barbiedúkkuna mína. Á minni skólagöngu voru stelpurnar í hannyrðum en strákarnir í smíðum. Hannyrðir vetrarins samanstóðu af skyldustykkjum sem allir urðu að vinna og aukastykkjum sem við völdum okkur sjálfar. Í lok vetrar var svo handavinnusýning í skólanum þar sem bæjarbúar gátu komið og barið augum afrakstur vetrarins hjá nemendum. Mér er sérlega minnisstæður dúkurinn sem ég valdi að sauma, þá líklega 11-12 ára gömul. Eitthvað hefur verkið sóst seint og verið leiðinlegra en lagt var upp með því ég var búin að reikna út að laufblöðin væru fleiri en 400 og hvað ég þyrfti að sauma mörg á dag til að ljúka verkinu á tilskildum tíma. Man enn þegar ég fór með dúkinn í skólann til að fá einkunn fyrir hann og var svo send heim til að ljúka verkinu fyrir sýninguna sem var daginn eftir. Allt tókst þetta en ég held reyndar að mamma hafi dregið mig að landi um nóttina. Dúkurinn góði er nú í sumarbústaðnum hjá dóttur minni og sómir sér vel.
Hvaða handavinna þykir þér skemmtilegust? Eiginlega finnst mér það sem ég er að vinna að hverju sinni skemmtilegast. Það var til að mynda mjög ánægjulegt að aðstoða dótturdótturina við að sauma fermingarkjólinn hennar síðastliðið vor. Hún er mjög áhugasöm um hannyrðir og finnst mér sérlega gaman að hjálpa henni og kveikja áhuga á nýjum verkefnum og aðferðum. Verð samt að viðurkenna að ég dett mikið í prjónaskapinn sem er þægilegt að grípa í við sjónvarpið og á ferðalögum.
Hverju ertu að vinna að um þessar mundir? Ég er alltaf með eitthvað á prjónunum og að þessu sinni er það vesti úr garni sem ég keypti í peysu fyrir nokkrum árum. Þetta er reyndar þriðja flíkin sem ég prjóna úr þessu garni þar sem ég hef ekki verið sátt við útkomuna. Næst á dagskrá er að prjóna lopapeysu á tengdasoninn. Inni í skáp bíður garn í peysu á sjálfa mig. Finnst betra hafa eitthvað til að grípa í. Á dagskrá er líka að eiga stefnumót við nýju saumavélina sem ég eignaðist síðastliðið haust. Saum-aði töluvert á börnin og sjálfa mig hér áður fyrr en saumavélin hefur átt það til að rykfalla nú í seinni tíð.
Hvar færðu hugmyndir að verkum? Ég nýti yfirleitt tækifæri til að fara í hannyrðabúðir á ferðalögum, bæði innanlands og ferðum í útlöndum. Ef ég sé spennandi garn leita ég að uppskriftum til að nota það í. Þá má alltaf finna uppskriftir á netinu, í bókum, blöðum eða bara í sófa-horninu hjá mömmu. Þessi árátta í að heimsækja garnbúðir hefur oftar en ekki orðið til þess að ein og ein hnota læðist með í ferðatöskuna án þess að hugmyndin um hvað eigi að verða úr þeim sé fullmótuð. Það kemur líka stundum fyrir að ég fer í garnbúð og óska eftir hugmyndum frá starfs-fólkinu. Það er ótrúlega gaman þegar starfsfólkið er skapandi og frjótt í hugsun og leyfir sér að hafa skoðun.
Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með? Þegar ég varð fimmtug færði mamma mér efni í pils fyrir íslenska þjóðbúninginn. Efnið var reyndar svo mikið að það dugði í peysu líka og úr urðu peysuföt sem ég saumaði á námskeiði hjá Helgu Sigurbjörnsdóttur. Ári síðar saumaði ég svo upphlutsbol og skyrtu. Silfrið í upphlutnum er frá ömmu Lóu, sem ég heiti í höfuðið á og er smíðað af bróður hennar sem var gullsmiður á Akureyri og í Reykjavík. Húfuna prjónaði hún mamma mín og má því segja að búningurinn sé fjölskylduarfleifð sem margar hendur hafa komið að. Ég finn alltaf fyrir stolti og gleði þegar ég klæðist búningnum.
Eitthvað sem þú vilt bæta við?Síðastliðnir mánuðir hafa verið óvenjulegir í mínu lífi þar sem veikindi hafa gert það að verkum ég hef verið mikið heima við. Þrátt fyrir skerta starfsorku hef ég getað prjónað og fyrir það er ég óendanlega þakklát. Tíminn hefur liðið hraðar um leið og sokkar, vettlingar og ein og ein peysa hafa orðið til. Þakkir til allra þeirra sem hafa í gegnum árin kennt mér það sem ég kann og stutt mig í hannyrðunum, sérstakar þakkir fær hún mamma mín sem er enn að aðstoða mig og segja mér til.
Áður birst í tbl. 7 Feykis 2022.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.