Séra Gísli Gunnarsson vígður vígslubiskup í Hólaumdæmi
„Líf, vöxtur og þroski. Undir þessum einkunnarorðum vil ég starfa þann tíma sem ég mun þjóna sem vígslubiskup“ Sagði séra Gísli Gunnarson ,áður sóknarprestur í Glaumbæ í Skagafirði nú vígslubiskup í Hólaumdæmi, í predikun sinni eftir að hann var vígður inn í embættið.
Margt var um manninn á Hólum og Hóladómkirkja þéttsetin.
Vígsluvottar, biskupar og aðrir gengu fylktu liði í helgigöngu til kirkju. Kirkjukórar Hóladómkirkju og Glaumbæjarprestakalls sungu undir stjórn organistanna Jóhanns Bjarnasonar og Stefán R. Gíslasonar. Íris Björk Gunnarsdóttir söng einsöng, hljóðfæraleikarar voru þau Bryndís Björgvinsdóttir og Brjánn Ingason. Sr. Dalla Þórðardóttir, prófastur, lýsti vígslu.
Um ritningarlestra sáu þau Drífa Hjartaróttir, forseti kirkjuþings, dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Hólaskóla og sr. Jón A. Baldvinsson, fyrrum vígslubiskup í Hólaumdæmi.
Vígsluvottar voru fjölmargir og fyrst skal dóttir sr. Gísla nefnd, sr. Aldís, prestur í Hafnarfjarðarprestakalli, þá sr. Sigríður Gunnarsdóttir, sóknarprestur á Sauðárkróki, Marianne Christiansen, biskup í Danmörku, Teemu Laajaslo, biskup frá Finnlandi, Solveig Fiske, biskup frá Noregi, Heri Joensen, prestur í Færeyjum. Þá sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholtsumdæmi, sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, fráfarandi vígslubiskup í Hólaumdæmi, sr. Kristján Valur Ingólfsson, fyrrum vígslubiskup í Skálholtsumdæmi og sr. Jón A. Baldvinsson, fyrrum vígslubiskup í Hólaumdæmi.
Var það Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir sem vígði sr. Gísla.
Í predikun sinni talaði séra Gísli um að snúa við þeirri þróun að sóknarbörnum Þjóðkirkjunnar hafi fækkað, hann nefndi líka mikilvægi sálgæslu og að um að það starf kirkjunnar væri ekki mikið talað.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá athöfninni.
/IÖF
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.