Saumaði sér boli fyrir böll þegar hún var unglingur
Hrund Jóhannsdóttir er 34 ára og er í sambúð með Gunnari Páli Helgasyni og eiga þau tvö börn, Heklu Sigríði 5 ára og Val Helga 1 árs og eiga þau heima á Hvammstanga. Hrund er með BS í ferðamálafræði frá Háskóla Íslands og rekur veitingarstaðinn Sjávarborg á Hvammstanga ásamt manni sínum.
Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir? Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tísku og fötum. Mér þótti mjög gaman að sauma og hanna föt þegar ég var unglingur og saumaði mér stundum boli fyrir böll, fór á fatahönnunarnámskeið, tók þátt í fatahönnunarkeppni og svo auðvitað saumaði ég og prjónaði í handavinnu í grunnskóla. Gerði svo ekkert í mjög langan tíma fyrr en í fyrravor, þegar ég byrjaði aftur að prjóna. Hafði þá ekki prjónað síðan í grunnskóla.
Hvaða handavinna þykir þér skemmtilegust? Mér finnst skemmtilegast að prjóna.
Hverju ertu að vinna að um þessar mundir? Ég er að prjóna kjól á dóttur mína eftir uppskrift frá Petiteknit sem heitir Karlas Kjole. Þar sem ég er sjaldnast með eitt verkefni í gangi í einu er ég líka að prjóna eina leikskólapeysu á son minn, eftir uppskriftinni Kári frá Stroff.
Hvar fékkstu hugmyndina? Ég fæ flestar uppskriftir og hugmyndir af verkefnum á Instagram, þar sem ég leita eftir ýmsum hashtöggum.
Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með? Ég er mjög ánægð með Ísafold peys-una frá Stoff sem ég prjónaði á sjálfa mig og svo peysuna sem ég prjónaði á manninn minn. Sú peysa er fyrsta og eina flíkin sem ég prjóna upp úr sjálfum mér og fer ekki eftir uppskrift, fann bara garn sem mér þótti fallegt og sótti svo innblástur á Instagram. Notaði svo lykkjustund.is til að reikna út lykkjufjölda út frá prjónafestu. Mjög sniðug og gagnleg heimasíða.
Eitthvað sem þú vilt bæta við? Mér hefði aldrei dottið það í hug að mér myndi finnast skemmtilegt að prjóna og hélt því lengi fram að þetta væri ógerlega flókið. Það geta allir lært að prjóna sem vilja. Aðgengið að upplýsingum er orðið svo gott. Ég nota YouTube mjög mikið þegar ég er strand og svo eru líka mjög flott námskeið á netinu í prjóni. Þetta er mjög skemmtilegt áhugamál og frábær slökun/hugleiðsla.
Hrund er með prjóna Insta-gram fyrir þá sem vilja fylgja með henni þar: hrundknits.
Áður birst í tbl. 4 Feykis 2022.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.