Sannfærandi Stólasigur gegn Berserkjum

Stólar fagna marki. MYND: SIGURÐUR INGI PÁLSSON
Stólar fagna marki. MYND: SIGURÐUR INGI PÁLSSON

Tindastóll og Kormákur/Hvöt spiluðu bæði í Lengjubikarnum í dag. Stólarnir áttu heimaleik gegn Berserkjum/Mídasi sem er einskonar B-lið Íslandsmeistara Víkings. Heimamenn voru í blússandi sveiflu, spiluðu vel og sköpuðu sér mörg góð færi og unnu leikinn örugglega 6-1. Húnvetningar spiluðu við KFG sem er B-lið Stjörnunnar og máttu sætta sig við 5-0 tap á Samsungvellinum í Garðabæ.

„Þetta var mjög öruggur sigur hjá okkar mönnum,“ sagði Donni þjálfari að leik loknum. „Við höfðum mjög mikla yfirburði úti á vellinum og spiluðum oft á tíðum mjög góðan fótbolta. Mörkin voru öll virkilega góð og við sköpuðum góð færi til að skora enn fleiri. Frábær liðsframmistaða og sýnir okkur að við erum á réttri leið í okkar leik. Næst er það Álafoss á útivelli á föstudaginn kemur en síðan verður haldið í sólina til Portúgals þar sem bæði karlaliðið og kvennaliðið munu dvelja saman í æfingaferð.“

Það voru Konni fyrirliði (2), Jón Gísli (2), Jóhann Daði og Ísak Sigurjóns sem gerðu mörk Tindastóls. Byrjunarliðið var þannig skipað að Einar var í markinu; Svend, Sverrir, Anton og Domi í vörninni; Konni, Siggi og Jónas á miðjunni og Jón Gísli, Bessi og Addi frammi. Einnig komu þær Óskar Örth, Emil, Benni, Ísak, Jóhann Daði og Eysteinn við sögu í leiknum.

Erfitt hjá Kormáki/Hvöt í Garðabænum

Lið Kormáks/Hvatar lék í dag við lið KFG sem hefur verið eitt sterkasta liðið í 3. deildinni síðustu sumur. Jóhann Jóhannsson kom heimamönnum á bragðið með marki á 23. mínútu og hann bætti við marki á 34. mínútu. Kári Pétursson gerði brekku Húnvetninga enn brattari þegar hann gerði þriðja mark KFG á 40. mínútu og staðan 3-0 í hálfleik. Eyjólfur Arason gerði fjórða markið á 51. mínútu og það var síðan Pétur Máni Þorkelsson sem gerði síðasta mark leiksins í 5-0 sigri Garðbæinga á 87. mínútu.

Þetta var síðasti leikur Kormáks/Hvatar í Lengjubikarnum en liðið lék fjóra leiki og tapaði þeim öllum og þurfti einnig að gefa einn leik þegar ekki náðist í lið. Húnvetningar eiga vafalaust eftir að styrkja hópinn áður en átökin í 3. deildinni hefjast.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir