Samvera fyrir Söruh

Í síðustu viku kom Sarah Holzem, formaður íþróttafélagsins Smára,  færandi hendi í Varmahlíðarskóla fyrir hönd félagsins þar sem allir nemendur 1. bekkjar fengu íþróttabúninga Smárans að gjöf. Mynd: Varmahlíðarskóli.
Í síðustu viku kom Sarah Holzem, formaður íþróttafélagsins Smára, færandi hendi í Varmahlíðarskóla fyrir hönd félagsins þar sem allir nemendur 1. bekkjar fengu íþróttabúninga Smárans að gjöf. Mynd: Varmahlíðarskóli.

Í nóvember 2022 greinist Sarah Holzem með brjóstakrabbamein og fór í aðgerð í desember. Nú tekur við löng og ströng lyfja- og geislameðferð í kjölfarið. Sarah er sjálfstæð móðir níu mánaða gamals drengs. Sarah hefur verið mjög virk í stjórn Ungmenna- og íþróttafélagsins Smára og hefur gegnt formennsku síðustu 2 ár. Einnig hefur hún haldið úti gönguhóp ásamt Helgu Sjöfn og verið virk í starfi Kvenfélags Seyluhrepps. Þessir hópar hafa nú tekið sig saman og hafið söfnun fyrir Söruh.

Föstudaginn 3. febrúar ætlum við að eiga samverudag í Varmahlíð þar sem boðið verður upp á ýmsar íþróttir í íþróttahúsinu frá 12 til 24 ásamt því að Kvenfélag Seyluhrepps, Lýtingsstaðahrepps og Akrahrepps ætla að bjóða upp á kaffi í Varmahlíðarskóla frá klukkan 15-18 og pizzahlaðborð frá klukkan 18-20.

Yfirskrift þessa dags er Samvera fyrir Söruh og er markmið hans að koma saman og hafa gaman. Þjálfarar Smára munu stýra dagskrá sem miðast við að öll fjölskyldan geti tekið þátt og eftir sprikl er hægt að setjast niður í Varmahlíðarskóla og fá sér gott í gogginn. Einnig mun gönguhópurinn ganga frá Varmahlíðarskóla kl. 16 þennan sama dag. Dagskráin í íþróttahúsinu verður auglýst inn á facebooksíðu Smára.

Hægt verður að leggja inn á söfnunarreikning í nafni Smára 0133-15-3129 kt.710895-2369 og einnig verður tekið við frjálsum framlögum bæði í íþróttahúsinu og í Varmahlíðarskóla.

Allir velkomnir og vonum við að fólk um allan fjörð komi og eigi fallegan dag saman!

/Aðsent

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir