Sameining heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni

Heilbrigðisráðherra hefur boðað sameiningar heilbrigðisstofnana á landinu þannig að ein heilbrigðisstofnun veiti almenna heilbrigðisþjónustu í hverju heilbrigðisumdæmi.  Þetta hefur m.a. í för með sér að Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki verður hluti af nýrri Heilbrigðisstofnun Norðurlands.
Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2014 segir meðal annars um þessi áform á bls. 391: „Til að mæta veltutengdum aðhaldsmarkmiðum ríkisstjórnar hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að sameina heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni þannig að ein stofnun verði í hverju heilbrigðisumdæmi eins og lög um heilbrigðisþjónustu gera ráð fyrir,….“ (Leturbreyting höfundar).  Ég hef ekki getað fundið þessa lagagrein og fer þess á leit við heilbrigðisráðherra að hann upplýsi mig um hvar þetta ákvæði er að finna í lögum.

 

Í bréfi til sveitarfélaga í heilbrigðisumdæmi Norðurlands (dags. 25. september 2013) segir meðal annars: „Allt frá gildistöku laganna hefur verið stefnt að því að innan hvers heilbrigðisumdæmis verði ein heilbrigðisstofnun sem veiti almenna heilbrigðisþjónustu í umdæminu.“  Þarna er vísað í lög nr. 40/2007.  Undir þetta bréf skrifa Anna Lilja Gunnarsdóttir og Sveinn Magnússon.  Skemmst er frá því að segja að fallið var frá áformum um sameiningu á árinu 2009 og ekki er að sjá að uppi hafi verið nein áætlun um slíkt síðan þá.  Sú spurning vaknar því óneitanlega hvort þetta sé stefna starfsmanna velferðarráðuneytisins sem er óháð vilja ríkisstjórnar og Alþingis.

Árið 2008 gaf fjármálaráðuneytið út rit sem heitir Sameining ríkisstofnana og tengdar breytingar en þar segir meðal annars á bls. 5:  „Töluvert er til af erlendu efni um sameiningu fyrirtækja en lítið virðist vera til um aðferðafræði og reynslu af sameiningu opinberra stofnana. Erlendar rannsóknir sem greint er frá í viðauka 1 benda til þess að sameiningar og aðrar meiriháttar breytingar skili sjaldan þeim árangri sem vonast er eftir eða í undir 15% tilvika. Helstu ástæður eru sagðar vera þessar:

  • Markmið og framtíðarsýn eru ekki nógu skýr eða ekki útskýrð nógu vel.
  • Fjárhagsleg samlegð er ofmetin.
  • Undirbúningi og skipulagningu er áfátt.
  • Starfsmannamálum er ekki sinnt nógu vel.“

Í ljósi þessa liggur í augum uppi að sameiningar þær sem heilbrigðisráðherra áformar virðast dæmdar til að mistakast.  Varla getur fjármálaráðherra fallist á þessi vinnubrögð í ljósi þess sem að framan er getið.

Ríkisendurskoðun hefur nokkuð fjallað um sameiningar ríkisstofnana í skýrslum sínum til Alþingis.  Í febrúar 2009 var gefin út stjórnsýsluúttekt á Heilbrigðisstofnun Austurlands.  Þar segir meðal annars um sameiningu heilbrigðisstofnana á Austurlandi í eina:

1.1 Við undirbúning sameiningar voru áhrif ýmissa áhættuþátta ekki nægjanlega vel metin

Helstu þættir sem hægðu á sameiningarferli HSA voru mikil fjarlægð milli starfseininga og erfiðar samgöngur, hagsmunaárekstrar milli byggðalaga á þjónustusvæðinu og erfiðleikar við mönnun svo fjarri höfuðborgarsvæðinu.  Ríkisendurskoðun telur að við undirbúninginn hafi skort á að helstu áhættuþættir sameiningarinnar væru metnir markvisst og skilgreint hvernig við þeim skyldi brugðist svo að lágmarka mætti áhrif þeirra.

1.2 Samruna- og kostnaðaráætlanir fyrir sameininguna vantaði

Ríkisendurskoðun telur að heilbrigðisráðuneytið hefði átt að hafa frumkvæði að gerð markvissra samruna- og kostnaðaráætlana vegna sameiningar heilbrigðisstofnana á Austurlandi þar sem ráðuneytið hefði lagt til þekkingu á verkefna- og breytingastjórnun en heimamenn þekkingu á aðstæðum og staðháttum. Í þeim sameiningum heilbrigðisstofnana sem boðaðar hafa verið er mikilvægt að ráðuneytið hafi frumkvæði að því að vel verði vandað til slíkrar áætlanagerðar.“

Augljóst er að velferðaráðuneytið tekur ekki tillit til þessara athugasemda Ríkisendurskoðanda við áform um sameiningu heilbrigðisstofnana innan heilbrigðisumdæma.  Hver er eftirlitsskylda Alþingis í þessu tilliti?  Varla sætta alþingismenn sig við þessi vinnubrögð velferðarráðuneytisins.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks segir meðal annars:  „Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið. Framfarir og bætt lífskjör á Íslandi hafa byggst á samvinnu og samheldni og til framtíðar munu Íslendingar halda áfram að leysa sameiginlega af hendi helstu verkefni þjóðfélagsins.“

Mér sýnist þær sameiningar, sem kastað er fram nánast fyrirvaralaust, ekki í samræmi við þessa yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.  Þá virðist þessi sameining einnig stangast á við stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar um byggðamál.

Flumbrugangur sá sem nú á að hafa við fyrirhugaðar sameiningar gengur ekki.  Það er ástæða til að sporna við fótum vegna þessara vinnubragða og vinna heimavinnuna áður en til stórra og afdrifaríkra sameininga kemur.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkti á fundi sínum s.l. fimmtudag að hafna alfarið framkomnum áformum velferðarráðuneytis um sameiningu heilbrigðisstofnana á Norðurlandi Bent er á að enginn landshluti hafi orðið jafn illa fyrir barðinu á niðurskurði í ríkisrekstri eins og Norðurland vestra, líkt og staðfest er í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Langverst hefur niðurskurðurinn bitnað á heilbrigðisþjónustu á svæðinu og þá ekki síst á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki. Á sama tíma hefur ársverkum ríkisstarfsmanna fjölgað verulega á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi. Í ljósi framangreinds mun Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar óska eftir viðræðum við velferðarráðuneytið um að sveitarfélagið taki við rekstri Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki og núverandi verkefnum hennar.

Við Skagfirðingar treystum því að þingmenn kjördæmis okkar standi með byggðalögum sínum í þessu mikla hagsmunamáli.  Það er jafnframt von okkar að ríkisstjórnin standi við fyrirheit um jafnrétti til búsetu og að áhersla verði lögð á að bæta stjórnsýslu og þjónustu ríkisins, m.a. með auknu samstarfi ríkis og sveitarfélaga.

Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir