Sama gamla góða sagan á Sauðárkróksvelli

Stólastúlkur fagna sigri í leikslok. MYND: ÓAB
Stólastúlkur fagna sigri í leikslok. MYND: ÓAB

Tindastóll fékk Haukastelpur í heimsókn á Krókinn í dag og það er skemmst frá því að segja að enn einn sigurinn vannst og enn einu sinni héldu Stólastúlkur markinu tandurhreinu. Lið gestanna má þó eiga það að það lét aðeins reyna á Amber Michel í marki Tindastóls en hún stóð fyrir sínu eins og vænta mátti. Lokatölur voru 3–0 eftir tvö mörk Tindastóls í blálokin.

Það liggur við að það megi segja að lið Tindastóls sé farið að vinna leiki á vananum því líkt og síðustu leikjum áttu Stólastúlkur ekki neinn stórleik. Þeim gekk illa að spila boltanum upp völlinn en þær eru alltaf líklegar til að skora og það er fátt sem sleppur í gegnum vörnina. Jafnræði var með liðunum framan af en Jackie lét nokkrum sinnum reyna á Sandiford í markinu en hún varði vel að venju. Hún kom hins vegar engum vörnum við þegar Aldís María skoraði eftir hornspyrnu á 15. mínútu. Aldís fékk boltann rétt utan markteigs og negldi á markið í gegnum þvögu Haukastúlkna og Sandiford virtist aldrei sjá boltann. Heimastúlkur duttu aðeins aftar á völlinn eftir þetta en fátt markvert gerðist fram að hléi annað en að lið Hauka fékk þrjár álitlegar aukaspyrnur sem þær náðu ekki að nýta. 

Þjálfarateymi Hauka gerði sitt besta í fyrri háfleik til að aðstoða dómarana við dómgælsluna, heimtuðu spjöld og aukaspyrnur eins og enginn væri morgundagurinn og hélt ágætur dómari leiksins smá tölu yfir þeim en án mikils árangurs. Menn ætla seint að læra að nöldur í dómara skilar vanalega engu og hefur örugglega ekki jákvæð áhrif á lið nöldraranna. Og varla eru menn vanir því fyrir sunnan að geta stjórnað dómurum af línunni?

Haukastúkur voru sterkari aðilinn í síðari hálfleik en þó án þess að skapa sér verulega góð færi. Þær fengu hornspyrnur, áttu nokkrar hættulegar fyrirgjafir og skot af löngu færi en Amber var bæði hugrökk og ákveðin í markinu og greip hvað eftir annað vel inn í leikinn. Liði Tindastóls gekk afleitlega að halda boltanum, sendingar voru ómarkvissar og Haukastúlkur hirtu boltann hvað eftir annað og hófu sóknaraðgerðir – en án árangurs. Síðasta stundarfjórðunginn skapaðist meira pláss fyrir heimastúlkur að sækja í og aðeins fór að losna um Mur sem hafði fengið fátt úr að moða í leiknum. Það var þó ekki fyrr en á 90. mínútu sem afmælisbarnið, Bergljót Ásta, gerði endanlega út um vonir gestanna um sæti í efstu deild. Boltinn hrökk til hennar utan teigs og hún hitti boltann eins og best verður á kosið og plantaði honum í hægra hornið án þess að Sandiford ætti séns. Mur slapp svo inn fyrir vörn Hauka á loksekúndum leiksins og ýtti Dagrún Birta duglega í bakið á henni. Markadrottningin okkar er ekkert í því að taka víti svo Jackie steig á punktinn eins og vanalega og sendi boltann upp í vinkilinn. Lokatölur 3–0.

Sigurinn gladdi stuðningsmenn Stólastúlkna sem fjölmenntu á leikinn með regnhlíf í hendi. Aðstæður voru þó ágætar en tiltölulega stillt var megnið af leiknum þó það rigndi látlaust. Tvær byrjunarliðsstúlkur vantaði í liðið að þessu sinni, María Dögg er í sóttkví en Hrafnhildur er meidd og þó hún sé ekki sú fljótasta í liðinu þá notar hún boltann vel inni á miðjunni og munar um minna. Sigur Tindastóls í dag tryggir liði Keflavíkur annað sætið í Lengjudeildinni og Haukar eiga því ekki lengur möguleika á að fara upp um deild. Sigur Tindastóls færir stelpurnar enn nær því að sigra Lengjudeildina en liðið þarf einn sigur í síðustu tveimur leikjunum til að tryggja það – eða bara vinna báða sem væri auðvitað langbest!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir